VG komin á bragðið — hafa með hótunum náð að beygja samstarfsflokkinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Það er ljóst að það getur reynst snúið að vinna úr óvissu um stöðu réttarkerfisins eftir dóm mannréttindadómstólsins. Hins vegar blasa líka við stór álitamál um pólitískar afleiðingar málsins,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra í samtali við Viljann í kvöld.

„Það eru engin önnur dæmi þess að stjórnarflokkur hafi þvingað annan flokk í ríkisstjórn til að skipta út ráðherra. Nú blasir við að VG neyddi Sjálfstæðisflokkinn til að skipta út ráðherra sem naut fullst stuðnings í eigin þingflokki. Ekki nóg með það heldur var um að ræða þann ráðherra sem helst hafði verið þyrnir í augum Vinstri grænna og var líklegastur til að veita þeim pólitíska mótspyrnu í ríkisstjórn,” segir hann.

En nú segir forsætisráðherra að Sigríður Andersen hafi sjálf tekið ákvörðun um að víkja.

„Nú skal ég gerast pólitískur túlkur og þýðandi. Þegar forsætisráðherra segir að dómsmálaráðherrann hafi tekið ákvörðunina sjálfur eftir að hafa átt samtöl við sig og auðvitað formann eigin flokks þýðir það að ráðherranum var sagt að ef hún tæki ekki þá ákvörðun að víkja væri stjórnin fallin og þar með ráðherrann líka. Telst þetta þá vera sjálfstæð ákvörðun?

Ef forsætisráðherra talar við formann annars stjórnarflokks og segist ekki ráða við sitt lið og geti ekki tryggt stuðning eigin flokks við ráðherrann hans og sá hringir svo í ráðherrann sinn og segir honum að samstarfsflokkurinn muni ekki styðja hann og þannig muni ríkisstjórnin falla, er þá hægt að tala um sjálfstæða ákvörðun?

Svo koma formenn stjórnarflokkanna einn af öðrum og segjast virða ákvörðunina. Þetta er auðvitað kostulegt.

Það lá fyrir að Sigríður Andersen hefði stuðning eigin flokks og ætlaði ekki að biðjast lausnar. Eftir samtöl við formennina boðaði hún skyndilega til blaðamannafundar til að geta tilkynnt að hún stigi til hliðar áður en þingflokksfundur Vg myndi klárast og forsætisráðherra gera grein fyrir afstöðu síns flokks.”

Spjótin hafa staðið á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

En hvaða kostur var þá í stöðunni fyrir Sjálfstæðisflokkinn?

„Formaður Sjálfstæðisflokksins hefði getað sagt forsætisráðherra að dómsmálaráðherra nyti stuðnings hans og þingflokksins. Ef Vinstri græn treystu sér ekki lengur til að styðja ríkisstjórnina alla væri hún þar með öll fallin.”

Það eru engin önnur dæmi þess að stjórnarflokkur hafi þvingað annan flokk í ríkisstjórn til að skipta út ráðherra. 

Ert þú þá á því að Sigríður Andersen hefði ekki átt að stíga til hliðar?

„Jú, mér finnst að hún og ríkisstjórnin öll ættu að stíga til hliðar en það er vegna annarra mála. Í þessu tilviki bar þingið ábyrgð með ráðherranum og forsetinn var meira að segja búinn að taka að sér að rannsaka málið sérstaklega og gefa því gæðastimpil.

Hvað sem segja má um stefnu og framgöngu Sigríðar á fyrri árum má hún alla vega eiga það að hún er hugrökk. Hún þorir að taka ábyrgð og ákvarðanir í stað þess að vera bara nokkurs konar upplýsingafulltrúi ráðuneytisins eins og sumir ráðherrar.”

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddi við fjölmiðla í gær eftir að hafa sett Sjálfstæðisflokknum stólinn fyrir dyrnar.

Hvaða afleiðingar telur þú að þetta muni hafa fyrir stjórnarsamstarfið?

„VG eru komin á bragðið. Þau eru með forsætisráðuneytið og forseta Alþingis og hafa með hótunum náð að beygja samstarfsflokkinn. Mun bakland VG núna láta segja sér að það þurfi að styðja mál sem þeim líst ekki á. Því skyldu þau gera það?

Svo skyldi maður ætla að óbreyttir þingmenn Sjálfstæðisflokksins verði ekki sérlega spenntir fyrir því að tryggja framgang hinna ýmsu mála frá ráðherrum VG, m.a. ýmsan ný-marxisma, m.a. í heilbrigðismálum. Annars veit maður ekki. Sjálfstæðisflokkurinn er þrátt fyrir allt agaður flokkur innbyrðis. Ef til vill halda þeir bara áfram að gefa eftir svo ráðherrarnir þeirra þurfi ekki að óttast að missa stólana.”