Við flytjum inn mörg þúsund tonn af hráu kjöti árlega

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í baksýn. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Margir þingmenn ræða málið um ófrysta kjötið af miklu ábyrgðarleysi. Það væri óskandi að hægt væri að taka þessa umræðu af einhverri yfirvegun og skynsemi.

Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins og formaður Utanríkismálanefndar Alþingis, á þingi í dag, en skiptar skoðanir eru um frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra, þar sem grænt ljós er gefið á innflutning á hráu kjöti og eggjum.

Áslaug Arna benti á að dómur EFTA í málinu væri fallinn, sömuleiðis dómur bæði fyrir héraðsdómi og hæstarétti.

„Það væri fyrst og fremst ábyrgðarleysi að bregðast ekki við. Frumvarp landbúnaðarráðherra setur lýðheilsu og búfjárstofna í forgang og þeir sem til þekkja, faglegir aðilar, segja mótvægisaðgerðir ráðherrans sterkar,“ sagði hún.

Allt tal um að þetta sé því í fyrsta sinn sem við leyfum hrátt kjöt og að hætta stafi af er, er algjör markleysa. 

„Við flytjum inn mörg þúsund tonn af hráu kjöti árlega — nefnilega frosnu hráu kjöti,“ sagði hún og benti á að aldrei hafi reynt á innköllun kjöts vegna hættu á smiti sem flutt hafi verið inn undir 30 daga frystiskyldu.

„Aldrei. Allt tal um að þetta sé því í fyrsta sinn sem við leyfum hrátt kjöt og að hætta stafi af er, er algjör markleysa. Munurinn er einungis hvort hrátt kjöt er flutt inn ferskt eða frosið. Við skulum muna að frysting drepur ekki sýklalyfjaónæmar bakteríur. Í reynd eru meiri líkur á að þær berist með mannfólki en landbúnaðarafurðum. Þá mun innflutningur líka mæta sömu kröfum og innlend framleiðsla,“ sagði hún.

Bætti Áslaug Arna við að enginn vafi léki á að Íslendingar treysti fremur íslenskum landbúnaðarvörum.

„Við eigum ekki að hræðast samkeppni. Því við getum fyllilega staðið undir henni. Val og staða neytenda á að vera okkur mikilvæg, það skapar einnig hvata og nýsköpun fyrir íslenskan landbúnað að gera sínar afurðir að fyrsta kosti neytenda. Ég treysti íslenskum landbúnaði í þessari samkeppni en ég treysti líka fólki til að velja,“ sagði hún og kvaðst velta því fyrir sér hvaða lausnir þeir þingmenn hafi, sem lýst hafa andstöðu við málið.

„Einhverjir myndu segja að lausnin til að komast undan þessu sé að segja upp EES samningnum. Ég get áréttað það hér, að það er ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Áslaug Arna.