„VIÐ FYLGJUMST MEÐ ÞÉR, JÚÐASVÍN“

„VIÐ FYLGJUMST MEÐ ÞÉR, JÚÐASVÍN.“ Þetta var ritað á miða sem skilinn var eftir undir rúðuþurrku bifreiðar sjötugrar konu í mars í fyrra. Hún er fyrrverandi prófessor, en atvikið átti sér stað við háskólann í Lundi í Svíþjóð. Bréfsefnið var frá sænskri nýnasistagrúbbu að nafni Andspyrnuhreyfing Norðurlanda (e. Nordic Resistance Movement). „Ég varð verulega óttaslegin“, sagði konan, sem þorði ekki að koma fram undir nafni.

Í október sama ár var brotist inn á heimili hennar og kveikt í því. Til allrar lukku var hún að heiman, en heimili hennar brann, og með því skrif móður hennar, sem hafði ritað um líf sitt í útrýmingarbúðunum í Auschwitz. „Ég hef í fyrsta sinn á ævinni orðið að leita mér sálfræðihjálpar. Ég er ráðalaus,“ er haft eftir konunni, sem er gyðingur. Time Magazine fjallaði um gyðingaandúð sem hefur sprottið fram af miklu afli á ólíklegustu stöðum á undanförnum árum, og fylgir hér lausleg endursögn á henni. 

Gyðingaandúð fer nú vaxandi í heiminum. Árásir á gyðinga tvöfölduðust í Bandaríkjunum á milli áranna 2017-18, skv. tölum ADL (Anti-Defamation League) í New York. Sérstaklega vex þó gyðingahatur í Evrópu, meginlandinu þar sem sama vandamál varð til þess að reynt var að útrýma þeim fyrir 75 árum. Síðastliðin þrjú ár hafa verið hverju verra í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, þar sem gyðingar hafa nýlega verið varaðir við að bera kollhúfur á almannafæri vegna hættu á árásum.

Kynþáttahyggja, andstaða við Ísrael og innræting múslima kyndir undir hatur

Könnun var gerð í Evrópu á meðal þúsunda gyðinga, þar sem 89% þeirra sögðust hafa orðið vör við vaxandi andúð á síðastliðnum fimm árum, og kváðust 38% þeirra íhuga að flytjast á brott, þar eð þeim finnst þau ekki vera örugg lengur. Niðurstöðurnar ættu ekki að koma neinum á óvart. Gyðingaandúð fær nú byr undir báða vængi, annarsvegar frá kynþáttahyggjumönnum á öfgahægri vægnum og hinsvegar frá þeim sem andæfa Ísrael á vinstri vængnum. Milljónum innflytjenda frá múslimalöndum sem setjast nú að í Evrópu hefur verið innrætt djúpstætt hatur á Ísrael og gyðingum. Hatrið fer nú eins og sinueldur um internetið.

Þrátt fyrir dökkar horfur, er vonarglætu að sjá. Meðfram vaxandi gyðingahatri er einnig vaxandi áhugi á að sporna gegn því, bæði á meðal Evrópubúa og stjórnmálamanna. Baráttunni gegn gyðingahatri er lýst sem baráttu sem Evrópa hefur ekki efni á að tapa. „Gyðingaandúð er andstæða þess sem Frakkland stendur fyrir“, er haft eftir forseta landsins, Emmanuel Macron í febrúar sl., er hann heimsótti grafreit gyðinga. Þar höfðu hakakrossar verið krotaðir á 80 leiði.

Alþjóðleg skilgreining á gyðingahatri eða antí-semitisma: Fjandskapur/hatur eða mismunun í garð gyðinga sem trúarhóps, þjóðar eða kynþáttar.

Margir hafa þegar tekið til sinna ráða víða um Evrópu, til að reyna að sporna við þessari skelfilegu þróun. Kennarar, imamar, rabbínar og aktívistar hafa lagt sig fram við að vekja athygli á vandamálinu og kenna börnum og unglingum að forðast steríótýpur. Einnig að tengja ólíka trúarhópa vinaböndum. Hryllingur seinni heimsstyrjaldarinnar þvingaði heiminn til að horfast í augu við skelfilegar afleiðingar gyðingahaturs. En ennþá grefur í meininu undir niðri – jafnvel þó að ekki hafi mátt ræða það opinskátt. Íslamskir hryðjuverkamenn hafa ráðist á gyðinga í Evrópu, en þær upplýsingar hafa týnst innan um fréttir af öðrum fórnarlömbum hryðjuverka þar. Evrópskir embættismenn hafa heldur dregið úr birtingu upplýsinga um gyðingahatur á meðal innflytjenda, af hræðslu við að koma af stað andúð á innflytjendum. 

Verst þegar hatrið byrjar að lita hversdagslífið

Fyrrum talsmaður samtaka gegn múslimaandúð í Frakklandi staðfestir að samhliða andúð á múslimum, sé engu minni andúð í garð gyðinga. Gyðingahatur er smám saman að síast út í almannarýmið með samsæriskenningum á internetinu og stjórnmálaumrótinu sem nú á sér stað í Evrópu, jafnvel á stöðum eins og í Svíþjóð. Gyðingahatur opinberaðist í mótmælum Gulu vestanna í Frakklandi, og Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að líða gyðingaandúð innan flokksins. Margir gyðingar í Evrópu segja að það séu ekki stóráföllin, heldur allar litlu uppákomurnar sem sýna fram á umfang vandans. Gyðingaandúð hafi síast út í daglegt líf, sem geri afar erfitt að fást við það. Kona sem reyndi að opna samkomusal fyrir gyðinga í Umeå í Svíþjóð, neyddist til að loka henni eftir endurtekin skemmdarverk og líflátshótanir, flytjast á brott og skipta um símanúmer.

 „Ef árásin er ekki alvarleg, þá er tilhneiging til að tilkynna það ekki til lögreglunnar“. Franskur gyðingur minnist þess að dóttir hans, 18 ára, hafi verið kölluð „skítajúði“ úti á götu, en hún gleymdi að segja honum frá því þar til seinna, þar sem að viðburðurinn var ekki það sem var henni efst í huga þann daginn. „Þetta sýnir dýpt vandans, en það er þegar svona lagað verður hluti af hversdagslífinu“. Afleiðingarnar eru orðnar þær, að sífellt fleiri gyðingar reyni að fela trú sína og uppruna og forðist að ganga með Davíðsstjörnuna nema þá undir fatnaði. Foreldrar segja börnunum að þegja yfir því að vera gyðingar.

Stjórnmálamenn og leiðtogar hópa og safnaða eru þó eitthvað byrjaðir að ranka við sér – gott er að reyna að minna fólk á að gyðingar eru samborgarar, nágrannar og vinir sem okkur ber að standa með.