„Það er grátlegt og um leið óskiljanlegt að horfa upp á þetta ár eftir ár. Við gamla fólkið búum í stóru húsunum okkar eða íbúðum, annað hvort hjónin saman eða eitt eins og ég, þegar makinn er fallinn frá, en það er ekki byggt nóg til að anna eftirspurninni. Ef nóg væri byggt fyrir okkur af hentugu húsnæði, þar sem er aðgengi að þjónustu og félagsskap annarra eldri borgara, myndi um leið losna fjöldi góðra íbúða og húsa í rótgrónum hverfum þar sem eru góðir skólar, leikskólar og önnur þjónusta — sem er einmitt það sem unga fólkið okkar með börnin sín þarf.“
Þetta segir athafnamaðurinn Helgi Vilhjálmsson, oftast kenndur við Góu, Kentucky Frield Chicken og Pizza Hut, um frétt Viljans frá í gær, þar sem fram kemur að biðlistar eftir hjúkrunarrýmum fyrir aldraða lengist og lengist og staðan sé mun verri nú en fyrir fimm árum, þrátt fyrir mikinn efnahagslegan uppgang undanfarin ár og ítrekuð fyrirheit stjórnmálamanna úr öllum flokkum um úrbætur í þessum efnum.
Helgi segist í samtali við Viljann hafa bent á það árum saman, að gamla fólkið í þessu landi þurfi enga hjálp í þessum efnum, það þurfi bara að fá leyfi til að koma hlutunum í lag.
„Lífeyrissjóðirnir okkar eiga meira en 5.000 milljarða og samt er ekki hægt að tryggja öldruðum áhyggjulaust ævikvöld. Hvers konar vitleysa er þetta eiginlega? Ef það er ekki eitt af hlutverkum lífeyriskerfisins okkar að passa upp á að við eldri borgarar höfum gott húsnæði og þjónustu, hvert er þá eiginlega hlutverk þess? Hvað á að safna miklum peningum til að braska með?,“ spyr hann.
Helgi segist hafa hitt aldraðan mann um daginn sem sagði að það væri ekki aðeins heimska fyrir íslenska þjóð að standa í þessum sporum, heldur sauðheimska. Undir það geti hann tekið. Það sé skammarlegt að láta gamalt fólk bíða á biðlistum árum saman og þrátt fyrir öll fyrirheitin haldi staðan bara áfram að versna og biðlistarnir að lengjast. Hann hafi ekki alltaf hlotið lof fyrir hugmyndir sínar um úrbætur, en spurning sé hvort allir snillingarnir sem töldu sig vita miklu betur, geti nú svarað því hvort þeirra aðferðafræði hafi verið svona miklu skynsamlegri.