Við skulum frekar halda áfram að vera fullvalda ríki

Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fv. hæstaréttardómari, segir að taka megi undir það að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi gegnum tíðina fært fram margt gott Íslendingum til handa.

„Dómstóllinn þar ytra hefur haft áhrif til góðs á Íslandi,“ segir Jón Steinar á vefsíðu sinni, en hann hefur m.a. sjálfur flutt mál fyrir dómstólnum og haft betur gegn íslenska ríkinu.

„Dómar MDE hafa ekki réttaráhrif hér innanlands. Það er alveg skýrt í lögum. Hlutverk dómsins er hins vegar að stuðla að því að grundvallarréttinda einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu sé gætt innan aðildarríkjanna. Þegar ríkin brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) veitir dómurinn leiðbeiningar um hvernig breyta megi lögum og reglum innan viðkomandi ríkis, þannig að þau stríði ekki lengur gegn sáttmálanum.

Þannig var það í máli Jóns Kristinssonar á sínum tíma talið brot á mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) að sami maður starfaði sem lögreglustjóri og svo dómari í sama máli. Þessi niðurstaða leiddi síðan til breytinga á íslenskum lögum, þar sem þetta gamla íslenska kerfi var afnumið.

Í málinu sem ég flutti þar ytra um félagafrelsi leigubílstjórans á árinu 1993, var komist að þeirri niðurstöðu að rétturinn til að standa utan félaga væri fólginn í félagafrelsi samkvæmt MSE. Þetta leiddi til breytinga á íslensku stjórnarskránni 1995, þar sem kveðið var sérstaklega á um þennan rétt. Öðrum lagaákvæðum var líka breytt vegna þessa, t.d. ákvæðum í lögmannalögum um félagsskyldu málflutningsmanna.

Svona á MDE að virka. Veita ábendingar um lagareglur sem við þurfum að breyta hér á landi til að uppfylla kröfur sáttmálans um vernd mannréttinda,“ bendir hann á.

Varðar aðeins afmarkað atvik sem búið er að afgreiða 

„Ég vek athygli á að dómurinn núna varðar enga svona réttarstöðu einstaklinga gagnvart ríkisvaldinu sem tilefni er til að færa í betra horf með lagabreytingum. Málið varðar einungis afmarkað atvik sem búið er að afgreiða hér innanlands með endanlegum hætti, auk þess sem öllum er ljóst að enginn efnislegur réttur var brotinn á kærandanum. Lagaákvæðið um skipun dómaranna var að finna í bráðabirgðaákvæði með dómstólalögum og varðaði skipan 15 fyrstu dómara í Landsrétt. Þau lög hafa runnið skeið sitt á enda og hafa ekki neina frekari þýðingu framvegis. Þeim þarf því ekkert að breyta. Brotið sem dómstóllinn taldi að hefði verið framið varðaði bara form en ekki efni og heyrir núna fortíðinni til.

Við þetta bætist svo að sýnt hefur verið fram á að undanförnu að þessi dómur MDE stenst ekki aðferðafræði sem skylt er að beita við lögfræðilegar úrlausnir. Það er ekki heimilt að álykta, eins og sumir gera, að allir dómar þessa dómstóls séu góðir og gildir einungis af þeirri ástæðu að einhverjir fyrri dómar séu það. Sjónarmið í þessa átt hafa birst en eru auðvitað óframbærileg. Menn færa ekki þau rök fyrir réttmæti dóms að viðkomandi dómstóll hafi fyrr kveðið upp dóma sem standast skoðun.

Það er svo býsna alvarlegt mál að bæði dómstólar og aðrar stofnanir hér á landi hafa stundum meðhöndlað dóma MDE í íslenskum málum eins og um lagalega bindandi niðurstöður hafi verið að ræða. Þetta er beinlínis andstætt lögum okkar um þennan sáttmála, því þar segir m.a. (2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu): „Úrlausnir mannréttindanefndar Evrópu, mannréttindadómstóls Evrópu og ráðherranefndar Evrópuráðsins eru ekki bindandi að íslenskum landsrétti.“ Það er eins og sumir telji að þessi skýru lagafyrirmæli hafi ekki gildi, því þeir missa einhvern veginn stjórn á sér þegar dómstóllinn hefur talað, hversu tilefnislaust það í raun er.

Við skulum frekar halda áfram að vera fullvalda ríki,“ segir Jón Steinar.