„Við vildum öll að hægt væri að gefa afgerandi svör“

Frá og með 15. júní næstkomandi gefst ferðamönnum kostur á að fara í skimun við komuna til landsins í stað þess að fara í 14 daga sóttkví, eins og krafa hefur verið um hingað til.  Nánar tiltekið verður ferðamönnum frá Schengen svæðinu frjálst að koma til landsins að uppfylltum skilyrðum um skráningu og skimun fyrir Covid-19 veirunni.

Í reglugerð sem dómsmálaráðherra hefur undirritað vegna breytinganna og kynnti á upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag, er að finna framlengingu takmarkana vegna ríkja utan Schengen, en þar eru einnig að finna undanþágur frá banninu sem hafa verið rýmkaðar frá því sem verið hefur. Til dæmis er þar opnað fyrir ferðir námsmanna frá ríkjum utan Schengen svo og sérfræðinga í vinnutengdum erindum.

Dómsmálaráðherra lýsti því á fundinum að hún stefni áfram að því að Ísland opni fyrir ríkjum utan Schengen-svæðisins um mánaðarmótin. Hún hefur falið sendiherra Íslands í Brussel að ræða við Framkvæmdastjórn ESB um  frekari tilslakanir til þriðju ríkja og mikilvægi ferðaþjónustu fyrir íslenskt efnahagslíf.

„Stjórnvöld hafa hingað til undirstrikað í þessum samskiptum við ESB að þær öflugu varnir og eftirlit sem skýra árangur Íslands ættu að tryggja að koma ferðamanna frá löndum utan Schengen ættu ekki að auka hættu annarra ríkja í samstarfinu. Áfram er skoðað að taka upp brottfarareftirlit með ferðamönnum frá þriðju ríkjum sem hyggjast ferðast áfram héðan inn á Schengen svæðið.

Aðildarríki Schengen leggja áherslu á að ríkin hafi samræmda stefnu bæði hvað varðar opnun innri og ytri landamæra svæðisins. Flest ríkin vilja létta ferðatakmörkunum sín á milli, þ.e. á innri landamærum, áður en opnað verður fyrir ytri landamærin. Innan samstarfsins hefur einnig verið unnið að því að rýmka í áföngum ferðaheimildir frá þriðju ríkjum frá og með næstu mánaðamótum,“ sagði Áslaug Arna á fundinum.

„Við vildum öll að hægt væri að gefa afgerandi svör til þeirra sem hyggja á ferðir til Íslands eða sjá um að skipuleggja slíkar ferðir frá löndum utan Schengen svæðisins. Ég mun beita mér fyrir því að allra leiða sé leitað til að móta skýr og skynsamleg skref við opnun ytri landamæra með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. 

Við þurfum að standa þannig að málum að sem best fari saman annars vegar uppbygging ferðaþjónustu og atvinnulífs að nýju og hins vegar sóttvarnaraðgerðir sem hindra útbreiðslu Covid 19. Takmarkanir á ferðafrelsi fólks verða að gilda í sem skemmstan tíma og sem betur fer má víða sjá að jákvæð teikn eru á lofti hvað varðar opnun landamæra en eins og við vissum að þá er þetta talsvert flókið verkefni,“ bætti hún við.