Viðkvæmir hópar velta fyrir sér hvenær óhætt er að fara aftur út á meðal fólks

Alma Möller landlæknir. / Lögreglan.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, kveðst hafa orðið mjög vör við áhyggjur sinna félagsmanna og annarra sem tilheyra viðkvæmum hópum eða eru með undirliggjandi sjúkdóma og hafa verið í sjálfskipaðri varnarsóttkví vegna kórónuveirunnar undanfarnar vikur.

Segir hún fólk í þessum hópi velta fyrir sér hvað muni breytast 4. maí, hvort í reynd verði óhætt að fara aftur út á meðal fólks meðan veiran leikur lausum hala og bóluefni ekki fundið.

„Meðan veiran er enn í einhverjum gangi og takmörkunum er aflétt rólega hugsa ég að þessi hópur muni halda sig til hlés, einfaldlega til þess að vernda sjálfan sig sem mest og best,“ sagði hún á upplýsingafundi Almannavarna í dag.

Alma Möller landlæknir sagði að nú væri unnið að nýjum tilmælum og leiðbeiningum til fólks í þessum hópi. Meiri upplýsingar liggi nú fyrir um þá undirliggjandi þætti sem skapi sérstaka áhættu gagnvart veikindum vegna covid-19.

„Við fengum auðvitað í upphafi upplýsingar frá Kína um þá sjúkdóma sem helst gæti verið um að ræða, en það hefur auðvitað verið að skýrast æ betur og nú er sérstakur hópur að skoða hvaða hópar eru í mestri áhættu og hvaða hópar sem taldir voru í áhættu, eru það í rauninni ekki,“ sagði hún á fundinum.

Landlæknir sagði að farið væri yfir stöðu sem flestra í þessari vinnu svo leiðbeiningarnar verði greinargóðar, því markmiðið sé auðvitað að fara að létta á takmörkunum fyrir þessa hópa líka svo þeir geti farið aftur út í lífið eins og aðrir í samfélaginu.

Eðlilegt að upplifa depurð

Þuríður lagði áherslu á að samstaða fólks við að hlýða fyrirmælum almannavarna vegi þungt í því að tekist hafi að halda COVID-19 í skefjum. Nú væru vonandi bjartari tímar framundan.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins. / Lögreglan.

Hún skýrði frá könnun sem gerð var meðal öryrkja, þar sem fram kom að þrír af hverjum tíu hefðu átt í erfiðleikum með að fá nauðsynjar og 70% væru einmana. Almenningur hafi kynnst einangrun á eigin skinni undanfarið og geti nú sett sig í spor þeirra sem hafa verið útilokaðir frá samfélaginu vegna fötlunar eða veikinda.

Eðlilegt væri við slíkar aðstæður að fólk upplifi kvíða og depurð. Mikilvægt sé að hringja í vin eða ættingja – eða hjálparsíma Rauða krossins 1717.

Þuríður sagði mikilvægt að huga að því hvers konar samfélag við vildum eftir faraldurinn. Mikilvægi heilbrigðis- og félagsþjónustunnar væri augljóst og hve mikilvægt væri að hafa gott aðgengi að þeirri þjónustu. Hún beindi því til stjórnvalda að skilja engan eftir. Ef við væru öll á sama báti yrði það að sjást í aðgerðum stjórnvalda.