Viðreisn horfir til Evrópu á sínu fyrsta milliþingi

Evrópusamstarf, frjálslyndi og umhverfismál verða í brennidepli á milliþingi Viðreisnar, sem haldið verður í fyrsta skipti laugardaginn 2. mars nk. í Hörpu. Ber milliþingið yfirskriftina „Hjartað í Evrópu“ og vísar þar til víðtækra hagsmuna- og menningartengsla okkar við álfuna.

Aðalfyrirlesari þingsins verður Timmy Dooley, varaforseti bandalags frjálslyndra flokka í Evrópu, ALDE, sem Viðreisn gerðist nýlega aðili að. Dooley er jafnframt varaformaður næst stærsta stjórnmálaflokks Írlands, Fianna Fáil. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að flokkur hans fái 4 þingmenn í komandi Evrópuþingskosningum og muni þar með efla stöðu ALDE á Evrópuþinginu en samkvæmt sömu könnunum mun ALDE styrkja stöðu sína og verða þriðji stærsti flokkahópurinn eftir kosningarnar í maí, að því er segir í tilkynningu frá Viðreisn. 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, mun setja þingið um klukkan 13. Á þinginu fara fram tvennar pallborðsumræður. Fyrra viðfangsefnið er umhverfismál undir yfirskriftinni „Umhverfisvernd er almannahagur“. Stjórnandi verður Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður, og með henni í pallborði verða Rósbjörg Jónsdóttir, formaður Landverndar, Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs, og Harpa Brynjarsdóttir sjávarútvegsfræðingur.

Seinna pallborðið verður um yfirskrift þingsins „Hjartað í Evrópu“. Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, stýrir umræðum og með honum í pallborði verða Dóra Sif Tynes, sérfræðingur í Evrópurétti, Sigríður María Egilsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar, og Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, kaupmaður.

Meðal annarra sem taka til máls eru Þorsteinn Víglundsson, varaformaður flokksins, Lovísa Jónsdóttir, formaður sveitastjórnarráðs Viðreisnar, Guðbjörg Ingimundardóttir, formaður öldungaráðs flokksins, og Kristófer A. Guðmundsson, formaður Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar.

Á þinginu verður jafnframt til afgreiðslu stjórnmálaályktun flokksins. 

Dagskrá milliþingsins í heild sinni má nálgast hér.