Viðreisn í bandalagi með Pírötum og Samfylkingu um breytingar á kvótakerfinu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, með meðflutningi þingmanna úr röðum Pírata og Samfylkingarinnar. Frumvarpinu er ætlað að auka gagnsæi í rekstri útgerða, auka traust á atvinnugreininni og tryggja að nýtingarréttur yfir auðlindinni safnist ekki á of fáar hendur.

„Þótt frumvarpið hafi verið í ríflega ár í undirbúningi hjá Viðreisn þá hefur það sjaldan verið jafn mikilvægt og nú, í ljósi frétta af úr svonefndum Samherjaskjölum,“ segir í tilkynningu frá Viðreisn og því bætt við að fiskveiðar séu ein allra mikilvægasta atvinnugrein íslensks samfélags og útgerðunum sé treyst fyrir afar mikilvægri ábyrgð, með því að veita þeim rétt til að vinna auðlindir okkar úr hafinu. Umsjón með bláa hagkerfinu okkar.

„Þess vegna hefur nú verið lagt fram á þingi frumvarp sem kveður á um þrennt. Í fyrsta lagi að til tengdra aðila í skilningi fiskveiðilaga teljist bein og óbein eign a.m.k. 10% hlutafjár í aðila sem ræður yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira, og að sama gildi um kröfur sem geri það að verkum að ætla megi að eigandi þeirra hafi áhrif á rekstur aðila sem ræður yfir 1% hlutafjár eða meira. Í öðru lagi að aðilum sem ráða yfir 1% heildaraflahlutdeildar eða meira verði skylt að stofna hlutafélag um reksturinn og skrá það á skipulegum verðbréfamarkaði. Í þriðja lagi að setja takmarkanir við hlutafjáreign eða atkvæðisrétt einstakra hluthafa og tengdra aðila í útgerðum sem ráða yfir 8% heildaraflahlutdeildar eða meira.

Er þetta til þess fallið að auka gagnsæi varðandi rekstur útgerðanna, sér í lagi þeirra sem ráða yfir verulegu magni verðmæta þjóðarinnar, og afmarka með skýrari hætti lög um það hámark í heildaraflahlutdeild sem einstakir aðilar eða tengdir aðilar geta ráðið yfir,“ segir í tilkynningu frá Viðreisn nú í morgun.