Forystumenn Viðreisnar kynntu í dag tillögur sem miða að því að fjárfestingar ríkissjóðs verði auknar um alls 60 milljarða króna á næstu þremur árum til að vega upp á móti þeim efnahagssamdrætti sem nú er hafinn. Lagt var til að fjárfestingarnar verði fjármagnaðar með sölu á þriðjungshlut í Íslandsbanka auk þess sem fjárfestingum áranna 2023 og 2024 verði flýtt.
Segja þau að fjárfestingar hins opinbera hafi verið langt undir meðaltali allar götur frá hruni og mikilvægt sé að nýta þann efnahagsslaka sem nú er að myndast til í þessum efnum. Viðreisn vari eindregið við því að dregið verði úr fjárfestingaráformum eins og ríkisstjórnin boðar.
Þingflokkur Viðreisnar boðaði til fjölmiðlafundar í morgun, í höfuðstöðvum hreyfingarinnar að Ármúla 42. Á fundinum fóru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður og Þorsteinn Víglundsson varaformaður yfir gagnrýni flokksins á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og undirliggjandi efnahagslega veikleika hennar, ásamt því að sýna á spilin og kynna eigin breytingartillögur við fjármálastefnuna.
Borgarlínu verði hraðað
Þau lögðu til að þungi fjárfestinganna fari í að hraða vegaframkvæmdum er tengjast Borgarlínu og að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og Suðurlandsvegar. Þá lögðu þau til að óvissusvigrúm fjármálastefnunnar verði aukið úr 0,4% í 1,5% til að skapa nauðsynlegt svigrúm, og að henni verði skipt milli ríkis og sveitarfélaga enda óraunhæft að ætla ríkinu svigrúm án þess að byggðum landsins sé veitt sambærilegt andrými.
Þorsteinn og Þorgerður ítrekuðu að enn og aftur kysi ríkisstjórnin að hunsa aðvörunarorð fjölmargra sérfræðinga og að óábyrgt væri að sýna ekki meiri varfærni en raun bæri vitni við þessar aðstæður. Vandinn sem ríkistjórnin stendur frammi fyrir hafi verið fyrirsjáanlegur og fyrirbyggjanlegur. Nú væri ljóst að sú breytingartillaga við fjármálastefnuna sem lögð hefur verið fram á þingi, byggi einnig á óraunhæfum forsendum um hagþróun næstu ára, líkt og upphafleg fjármálastefna. Ríkisstjórnin hafi vanáætlað fækkun ferðamanna, ekki tekið nægilegt tillit til hægari vaxtar í einkaneyslu og íbúðafjárfestingu og hafi vanmetið nýlegar gengisbreytingar krónunnar.
Þau bentu á að slík óvarfærni geti haft í för með sér að efnahagslægðin, sem nú er komin af stað og mun setja mark sitt á þjóðina næstu árin, verði dýpri en væntingar geri ráð fyrir og dýpri en ríkisstjórnin hafi gefið sér svigrúm til að bregðast við. Afleiðingar þess geti orðið aukið atvinnuleysi, versnandi staða þjóðarbúsins og lægri kaupmáttur heimilanna. Allt skerði þetta lífskjör þjóðarinnar.
Jafnframt vöktu þau máls á því að fjölmörg verkefni hafi setið á hakanum í kjölfar efnahagshrunsins og að fjárfestingarstig ríkisins hafi ekki enn náð meðaltali í sögulegu samhengi. Ekki sé útlit fyrir að það gerist á næstunni, þar sem stjórnvöld hyggist enn draga úr eða fresta framkvæmdum. Þar að auki sé hætta á að sveitarfélög neyðist til að gera slíkt hið sama í ljósi þess þrönga stakks sem þeim er sniðinn í fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar.
Þorsteinn og Þorgerður lögðu að lokum ríka áherslu á að úttekt verði gerð á útgjaldaaukningu ríkisins síðustu árin og bentu á að í fjölmörgum tilvikum hafi engin mælanleg markmið verið sett fram um árangur af aukningunni. Því til stuðnings vísuðu þau til talna Landlæknis um árangur af sérstökum biðlistaátökum, auk tölfræði um afköst heilbrigðiskerfisins, sem bendi ekki til þess að mikill árangur hafi hlotist af mikilli útgjaldaaukningu. Það væri áfellisdómur fyrir ríkisstjórnina og heilbrigðisráðherra sem ábyrgðaraðila málaflokksins. Leita verði allra leiða í kólandi hagkerfi til aukinnar skilvirkni, hagræðingar og bættrar nýtingar svo ekki þurfi að koma til skerðingar á grunnþjónustu og öðrum mikilvægum stoðum samfélagsins.