Viðsemjendur eru í raun ferðamennirnir

Þorsteinn Pálsson fv. forsætisráðherra. / Skjáskot RÚV.

„Það er ákveðin hætta á ferðum, margir tala um nýja verkalýðsforystu, ég brosi nú út í annað, mér finnst þetta vera svolítið gamaldags, eins og við séum að fara inn í gamla tíma,“ sagði Þorsteinn Pálsson, f.v. forsætisráðherra og f.v. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, í Silfrinu hjá Agli Helgasyni í morgun, en hann var m.a. spurður að því hvernig honum litist á kjaradeilurnar og boðuð verkföll.

„Það er ekki mikið um nýjar eða ferskar hugmyndir í þessu,“ heldur Þorsteinn áfram. Honum finnst róttæknin gamaldags, en segir þó að ekki megi skella skuldinni á verkalýðshreyfinguna og segir Samtök atvinnulífsins (SA) einnig bera ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin.

Áður, á árunum 2013-16, hafi verið skilyrði hjá SA og Alþýðusambandi Íslands (ASÍ) að fara í viðræður við ríkisstjórnina og grundvallaratriðið var að semja um stöðuga mynt, en nú hafi SA hlaupið frá því, sem skapi nýjar aðstæður í samfélaginu. Ekki sé hægt að taka þá ábyrgð af SA. 

„Ef við horfum til baka á Þjóðarsáttina, og rifjum upp út á hvað hún gekk árið 1990, það voru ekki vinsælar aðgerðir sem var að semja um þá á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. Það sem aðilar vinnumarkaðarins þá lögðu fyrir ríkisstjórnina, var að afnema nýumsamdar launahækkanir til háskólamenntaðra opinberra starfsmanna sem ríkisstjórnin hafði nýlega skrifað undir,“ segir Þorsteinn.

Hitt atriðið hafi verið að tryggja stöðugt gengi krónunnar, það hafi verið lykilatriði í Þjóðarsáttinni. 

Samtök atvinnulífsins hlaupið frá fyrri stefnu um stöðugan gjaldmiðil

„Fyrir 5-6 árum voru SA enn með þessa stefnu, en nú hafa samtökin hlaupið frá þessu og það er að skapa þennan stóra og alvarlega vanda,“ segir Þorsteinn, en tekur fram að hann vilji ekki draga úr ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar: „En það verður að skýra þá stöðu sem upp er komin, með þessari breyttu grundvallarafstöðu SA.“

Þorsteinn sagði jafnframt að SALEK fyrirkomulagið, að norrænni fyrirmynd, geti ekki gengið upp nema með stöðugri mynt.

Spurður telur Þorsteinn að launaákvarðanir kjararáðs og launahækkanir forstjóra að það hafi örugglega haft sitt að segja, en segir: „Við skulum átta okkur á því að hér er tiltölulega mikill launajöfnuður, en meiri misskipting hvað varðar eignir en víða annarsstaðar, við búum við meiri ójöfnuð á fjármálamarkaði en í nokkru öðru lýðræðisríki. Stór hluti atvinnulífsins er utan við krónuhagkerfið, á meðan launamenn eiga að starfa innan þess. Þetta býr til misrétti sem fólk sættir sig eðlilega ekki við.“

Hann segist hafa heyrt ungan framsækinn kaupmann tala um að allir nema launafólkið væru með verðtryggingu. Útflutningsaðilar hefðu hana í gegnum erlendar myntir og kaupmenn gætu velt auknum kostnaði út í verðlagði. Þeir einu sem sætu eftir væri launafólkið, sem fær laun í mynt sem „er ekki gjaldgeng“.

Óréttlæti varðandi mynt og vexti sem grefur um sig

Þorsteinn tók dæmi um forstjóra í sjávarútvegsfyrirtæki sem byggir nýja fiskvinnslustöð, starfar utan krónuhagkerfisins og fær lán á lægstu kjörum til byggingarinnar, en verkakonan sem vinnur hjá honum og þarf að kaupa t.d. tveggja herbergja íbúð, sem er frumþörf, þarf að borga vexti sem eru fimmfalt hærri. „Þetta er óréttlæti sem grefur um sig, og stjórnvöld vilja ekki taka á, því það eru hagsmunaöfl sem toga í flokkana bæði frá hægri og vinstri, til að viðhalda þessum órétti.“

Þorsteinn segir vandamálið liggja í grunngerð efnahagsstefnunar, og ríkisstjórnin að þessu sinni sé samsett til að verja misréttið og koma í veg fyrir að það verði leiðrétt og enginn vilji sé til að ræða það. Á undanförnum árum hafi láglaunastörfum fjölgað, en enginn útflutningshagvöxtur hafi orðið í þekkingarstörfum, menntafólkið flytji út til að vinna hálaunastörf en láglaunafólk flytjist inn í landið. Hann telur efnhags- og peningastefnu sem gengur út á að flytja inn erlent vinnuafl í láglaunastörf, á meðan menntaðir Íslendingar flytjast í burtu, vera gagnrýniverða.

„Þetta er óheillaþróun sem mun ekki ganga upp og við verðum að gera grundvallarbreytingar.“ 

Viðsemjandur ferðaþjónustunnar eru í raun ferðamennirnir

Hann segir raunverulega viðsemjendur ferðaþjónustunnar vera ferðamennina, hvort þeir eru tilbúnir að greiða hærra verð. 

„Verkfallsátök í nútímasamfélagi eru þess eðlis að fá fyrirtæki geta staðist það. Það er gömul hugmyndafræði að fyrirtæki geti stoppað í eina viku eða mánuð og síðan byrjað aftur eins og ekkert sé.“

Spurningin sé hvað gerist þegar upp verði staðið. Verði ferðamennirnir tilbúnir að kyngja verðhækkunum, þá hafi verkalýðshreyfingin fengið sínu framgengt, en ef ekki muni störfum fækka.

Launahækkanir sem ekki er innistæða fyrir muni valda vaxtahækkunum, gengislækkunum og verðbólgu, en jafn hættulegt sé að veita slaka í ríkisfjármálunum. „Ef aðkoma ríkisins þýðir slaka í ríkisfjármálum, þá kemur sama niðurstaða. Það er ekki verið að færa til skattbyrði, í raun það sem er verið að gera er að ríkisstjórnin er að borga launahækkun fyrir fyrirtækin. Það er verið að auka einkaneyslu og taka peninga frá samneyslunni, og þetta er gert undir forystu Vinstri grænna.“