Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók í morgun þátt í upphafsathöfn árvekniátaks um fjölbreytileika í Safnahúsinu á alþjóðlegum degi Sameinuðu þjóðanna um menningarlegan fjölbreytileika.
Þar veitti hún viðtöku lotukerfi fjölbreytileikans sem Viðskiptaráð Íslands hefur unnið í samstarfi við fjölmarga aðila. Lotukerfinu er ætlað að minna á hvað fjölbreytileiki snýst um marga og hvetja til þess að íslenskt samfélag nýti sér styrkinn sem í honum felst, hvort heldur í atvinnulífi, menntakerfi eða hjá hinu opinbera.
Aukin fjölbreytni er stórt hagsmunamál fyrir viðskiptalífið á Íslandi, hvort heldur sem er í stjórnum, framkvæmdastjórnum eða meðal starfsmanna. Af þeim sökum var fjölbreytnihópur Viðskiptaráðs stofnaður með það að markmiði að stuðla að fjölbreyttara atvinnulífi hér á landi í mannauði og rekstrarformi.
Í vinnu hópsins urðu til tvenns konar afurðir; myndbandaröð um fjölbreytileika í sinni víðustu mynd og lotukerfi fjölbreytileikans að bandarískri fyrirmynd – staðfært yfir á íslenskan raunveruleika árið 2019.
„Þó að íslenskt samfélag sé orðið mun fjölbreyttara en það var áður eigum við samt langt í land. Fólk er alls konar og samfélag sem gerir ekki aðeins ráð fyrir margbreytileikanum heldur nýtir sér styrkinn sem í honum felst verður gott samfélag,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Árverknimyndbönd voru einnig ræst á fundinum og barnakór Ísaksskóla tók lagið. Fundurinn var haldinn á vegum Viðskiptaráðs Íslands, í samstarfi við Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.