Viðskipti borgarinnar við eigin fyrirtæki taka út yfir allan þjófabálk

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

„Eigin viðskipti Reykjavíkurborgar við fyrirtæki sem eru í eigu hennar taka út yfir allan þjófabálk. Borgin kaupir malbik af eigin malbikunarstöð, fjarskipti af eigin fjarskiptafyrirtæki, rafmagn af eigin raforkusölu og svona mætti lengi telja. Svona kaupfélagsviðskipti eru tímaskekkja á 21. öldinni þar sem frjáls viðskipti eiga að vera lykilatriði enda margsannað að þau lækki kostnað í þágu borgarbúa.“

Þetta sagði Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur í gær þegar tillaga borgarfulltría Sjálfstæðisflokks og Miðflokks um útboð á raforku, ljósastýringum og LED-lýsingu gatna var felld af meirihluta borgarstjórnar.

Tillagan var lögð fram í tilefni af því að nú hafa samtals fjórir úrskurðir fallið um ólögmæti núverandi fyrirkomulags eins og rakið er í greinargerð með tillögunni.

„Í stað þess að samþykkja að fara í útboð lagði borgarstjórnarmeirihlutinn fram svokallaða breytingartillögu um að þetta yrði eitthvað skoðað af embættismönnum. Með þessari málsmeðferð er meirihlutinn að tefja framgang réttvísinnar og bregðast bæði borgarbúum og fyrirtækjum í borginni,“ sagði Eyþór.

„Það að fella tillöguna þrátt fyrir að fyrir liggi fjórir úrskurðir um að það sé lögbrot að bjóða þessi atriði ekki út er borginni ekki sæmandi. Á síðasta ári keypti borgin rafmagn og þjónustu frá Orkuveitu Reykjavíkur fyrir 826 milljónir. Allt er þetta eitthvað sem hægt er að kaupa af öðrum aðilum og rétt að benda á að verðmunur á raforku er um 25% á markaði. Hér er því um gríðarlega fjármuni að ræða, auk þess sem borgin brýtur lög og hindrar eðlilega samkeppni á markaði,“ bætti Eyþór við.