Björt Ólafsdóttir, fv. umhverfisráðherra, mælir ekki með því að fólki sé refsað án dóms og laga. En hún segir að breyta þurfi lögum að því er varðar fyrningarfrest í kynferðisafbrotamálum. Viðurkenna beri alvarleikann í því sem hafi verið að gerast hér á landi, þegar margar konur beri vitni um kynferðislega áreitni af hálfu eins þekktasta stjórnmálaforingja þjóðarinnar, Jóns Baldvins Hannibalssonar.
Hún vísar í færslu á fésbókinni til þess að fyrir sex árum hafi verið birt gróflega klámfengin bréf Jóns Baldvins sem enginn vafi lék á að hann hafði skrifað til Guðrúnar Harðardóttur, þá stúlku á barns og unglingsaldri.
„Bréfin gáfu það til kynna á svörtu og hvítu hvernig hann gerði ítrekaðar tilraunir til þess að innræta barninu kynferðisleg athæfi og kenna henni hvað þykja ætti viðurkennt og spennandi í samskiptum þeirra í milli í þeim efnum. Þetta heitir grooming á enska tungu, orðið tæling í íslensku nær því ekki alveg, en á við þegar barnaníðingar nota yfirburði sína sem fullorðnir einstaklingar til þess að stjórna huga og búa til veruleika barnshugans á mótunarskeiði sem hentar þeim til þess að geta svo betur svalað fýsnum sínum áfram án mótstöðu. Þetta var fært fram því þarna voru hreinar sannanir. Annað var látið til hliðar því þar var einungis um að ræða orð á móti orði sem reynslan hefur kennt að dugir ekki,“ segir Björt.

„Ég man eftir þegar handskrifuðu bréfin hans Jóns Baldvins birtust. Ég man eftir einhverjum fyrirsögnum í blöðum og ég man eftir að talsvert var um skammir til Þóru Tómasdóttur ritstjóra Nýs lífs sem birti bréfin. Það varð eitthvað rót svona á yfirborðinu. Mörgum misbauð að sjálfsögðu, en ég man líka eftir tómlætinu sem fylgdi á eftir. Áhrifafólk í samfélaginu sagði ekkert.,“ bætir hún við.
„Ég mæli ekki með því að fólk sé refsað án dóms og laga. Þess þá heldur; breytum lögum það sem þarf með því að breyta fyrningarákvæðum í kynferðisbrotamálum.
En fyrst og fremst; viðurkennum alvarleikann í því sem hefur verið að gerast hérna. Og heldur bara áfram að gerast ef við höldum áfram uppteknum hætti skeytinga- og áhugaleysis á lífi fjölmargra kvenna sem má auðveldlega rústa í skjóli þess að enginn segir neitt þegar þær reyna að bera hönd fyrir höfuð sér,“ segir Björt Ólafsdóttir.