Vigdís gefur kost á sér sem varaformaður Miðflokksins

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins.

„Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti varaformanns Miðflokksins sem kosinn verður á Landsþingi flokksins sem fer fram 28. og 29. mars næstkomandi.“

Þetta segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi, í færslu á fésbókinni nú í morgun, en hún hefur íhugað framboð undanfarna daga og fengið hvatningu víða að.

„Varaformaður Miðflokksins stýrir almennu innra starfi og er tengiliður stjórnar við flokksfélög og sveitarstjórnarfulltrúa. Reynsla mín af þingi og ekki síður í borgarstjórn mun án efa koma til með að styrkja böndin á milli stjórnar flokksins, sveitastjórnarstigsins og grasrótarinnar nái ég kjöri.

Ég vil þakka alla þá hvatningu og stuðning sem ég hef fengið víðs vegar að af landinu til að stíga þetta skref. Ég hef ígrundað málið vel og met það svo að ég geti ekki skorast undan ábyrgð.

Jafnframt heiti ég því að vinna af heilindum og dugnaði til að gera hlut Miðflokksins sem mestan í framtíðinni, landi og þjóð til heilla.

Virðingarfyllst,
Vigdís Hauksdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi,“ segir ennfremur í yfirlýsingu hennar.

Vigdís var áður þingmaður Framsóknarflokksins og m.a. formaður fjárlaganefndar.