Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins. Fyrirspurnir hennar og gagnrýni leiddu til þess að Innri endurskoðun var falið að rannsaka braggamálið.

„Seinni helmingur í braggamálinu er hafinn. Borgarstjóri verður að segja af sér – hann á enga undankomuleið,“ segir Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, í færslu sem hún birtir á fésbókinni í kvöld.

Vigdís, er sá stjórnmálamaður sem gekk hvað harðast fram í að gagnrýna Braggamálið síðastliðið sumar og haust og kalla eftir upplýsingum og ábyrgð úr borgarkerfinu. 

Hún bendir á skýra ábyrgð borgarstjórans í málinu og hana verði Dagur B. Eggertsson nú að axla.

„Borgarstjóri er framkvæmdastjóri Reykjavíkur og ber ábyrgð á öllum rekstri borgarinnar – SEA heyrir beint undir hann og borgarritara,“ segir Vigdís.

„Það er lítilmannlegt að skella skuldinni á brottfarinn embættismann skrifstofunnar þegar vitað er að þeir tveir voru í nánu vinnusambandi án borgarritara,“ bætir hún við.