Vilja auka veg fræðslu um kristinfræði í grunnskólum

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og áður Miðflokksins. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Allir þingmenn Miðflokksins og tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp til laga á Alþingi um að kristinfræði verði gert hærra undir höfði í grunnskólastarfi.

Birgir Þórarinsson er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, en en aðrir flutningsmenn eru þau Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson úr Miðflokki og þeir Ásmundur Friðriksson og Brynjar Níelsson frá Sjálfstæðisflokki.

Í frumvarpinu er aðeins gerð tillaga um breytingar á fyrstu og annarri grein núgildandi grunnskólalaga, svofelld:

1. gr.
    Á undan orðinu „trúarbragðafræði“ í 2. mgr. 25. gr. laganna kemur: kristinfræði og.

2. gr.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Í greinargerð segir:

„Frumvarp þetta lýtur að því að auka veg kristinfræðikennslu í grunnskólum landsins eins og var fyrir gildistöku grunnskólalaga, nr. 91/2008. Heiti námsgreinarinnar trúarbragðafræði verði breytt í kristinfræði og trúarbragðafræði. Nám á þessu sviði er mikilvægt til skilnings, umburðarlyndis og víðsýni.
    Nemendur verða að vera búnir undir að lifa í fjölbreyttu lýðræðislegu samfélagi og takast á við margvísleg úrlausnarefni sem þeirra bíða í breyttum heimi.

Ágrip af sögu kristinfræðikennslu á Íslandi
    Kirkjan festi rætur í íslensku samfélagi fljótlega eftir kristnitökuna árið 1000. Fast helgihald, guðsþjónustur, dýrlingar og ýmsar hátíðir, sýna að kirkjan snerti líf einstaklinga nánast alla ævi þeirra. Kirkjur, skólar og klaustur risu, bókmenntir og listir blómguðust og kirkjan varð æ viðameiri stofnun í samfélaginu. Þannig var kirkjan og hugmyndafræði hennar meðal hornsteina samfélagsins næstu fimm hundruð árin, eða þar til nýr siður var tekinn upp.
    Við siðbreytinguna um 1550 jókst menntun enn frekar. Marteinn Lúther taldi menntun gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki í hæfni manna til að sinna veraldlegum skyldum. Trúarleg fræðsla þjónaði andlegum tilgangi. Á Íslandi jókst almenn menntun og hófst formleg kennsla í kristnum fræðum á þeim tímapunkti. Kennslan fólst fyrst og fremst í þátttöku fólks í guðsþjónustum kirkjunnar en kennslubækur í lestri geymdu þó oft fræðslu um kristna trú. Árið 1594 voru Fræði Lúthers hin minni gefin út á Íslandi í þýðingu Odds Gottskálkssonar og árið 1736 var gefið út Barnalærdómskver í íslenskri þýðingu en það innihélt 759 spurningar og svör. Árið 1746 kom tilskipun frá konungi um að fimm til sex ára börn ættu að læra fræði Lúthers og síðar kverið. Prestar skyldu vitja heimila og fylgjast með námi barna og sekta heimili ef því var ekki sinnt. Skylda var að hefja kristindómsnám fyrir 10 ára aldur og ljúka því fyrir 14 ára aldur, vanræksla varðaði sektum. Skipulögð kennsla kristinfræði hófst ekki fyrr en í kringum 1879. Þá voru lög samþykkt á Alþingi og staðfest af konungi, þar sem kveðið var á um að fræðslan væri á ábyrgð heimilanna en prestar hefðu eftirlit með henni. Það var hin opinbera og viðurkennda skipan þar til barnafræðslulög voru sett árið 1907. Með þeim lögum færðist skipan fræðslumála undan umsjá kirkjunnar og yfir til ríkis og skóla.
    Árið 1929 var gefin út námskrá þar sem fram kom að kennsla kristinfræði skyldi hefjast við 8 ára aldur og ljúka við 13 ára aldur. Gefnar voru út biblíusögur á síðari hluta 19. aldar og voru þær kenndar ásamt kverunum, Gamla testamentinu, Nýja testamentinu, sálmum og bænum. Námið var að mestu í formi utanbókarlærdóms og kennarar og prestar sáu um kennslu þrátt fyrir að búið væri að aðskilja kirkju og skóla. Með þessari námskrá hófst biblíusögukennsla í því formi sem best er þekkt í dag. Biblíusögurnar eru síðast nefndar í aðalnámskrá grunnskóla 2007 en þar kemur fram að biblíusögur séu veigamikill þáttur og nemendur eigi að leita eftir trúarlegri merkingu þeirra, menningaráhrifum og tengslum við daglegt líf.
    Fræðslulög voru sett árið 1946 sem varð til þess að vægi kristinfræðslu rýrnaði. Árið 1960 var ný námskrá gefin út. Þar var nánar farið í það námsefni sem kenna átti en nemendur áttu að læra ákveðna sálma, ritningargreinar og þekkja helstu viðburði kirkjusögunnar. Markmið voru sett fram varðandi kennsluna, hún átti meðal annars að veita nemendum þekkingu á aðalefni ritningarinnar, fræða nemendur um líf Jesú Krists og efla þroska þeirra með fræðslu um lífsskoðun og kristna siðfræði.
    Í lögum um grunnskóla sem sett voru árið 1974 kom nýtt ákvæði þar sem fram kom í fyrsta sinn að kristilegt siðgæði skyldi móta skólastarfið og að sérstaklega skyldi kenna siðfræði og almenn trúarbrögð. Dr. Gunnar Thoroddsen talaði fyrir því á Alþingi að kristið siðgæði ætti heima í markmiðsgrein um grunnskólanna. Í 2. gr. laganna sagði svo: „Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“

Kristinfræði í aðalnámskrá grunnskóla frá 1976 til 2007.
    Í kjölfar laga um grunnskóla kom út aðalnámskrá grunnskóla árið 1976. Kristinfræðikennsla breyttist þar á róttækan hátt þannig að kristilegt siðgæði fékk aukna áherslu, aðrar kirkjudeildir og önnur trúarbrögð sömuleiðis. Breyttar áherslur voru kynntar, með auknu tilliti til nemenda og skilnings þeirra á námsefninu.
    Þar er í fyrsta sinn talað um aðrar kirkjudeildir og önnur trúarbrögð samhliða kristinfræði og siðfræði. „Tilgangur náms í kristnum fræðum, siðfræði og fræðslu um önnur aðaltrúarbrögð er að veita nemendum þekkingu á kjarna og kenningu kristinnar trúar, sögu og útbreiðslu hennar og áhrifum á líf einstaklinga og menningu þjóða, leiðbeina nemendum um undirstöðuatriði kristinnar siðfræði og fræða þá um önnur helstu trúarbrögð nútímans.“
    Aðalnámskrá árið 1989 var áþekk. Þar kemur fram að undir námsgreinina falli kennsla í kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði og kenna eigi hana í 1.–9. bekk. Náminu er ætlað að veita nemendum þekkingu og skilning á kristindómi, lögð er áhersla á kristinn mannskilning og siðferðileg atriði í tengslum við mannleg samskipti, þjóðlífið og nýtingu náttúruauðlinda.
    Eðlilegt þótti að byggja kennsluna á túlkun evangelísk-lútherskrar kirkju þar sem nánast öll þjóðin tilheyrði þjóðkirkjunni eða evangelísk-lútherskum fríkirkjusöfnuðum, sbr. 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Trúarbragðafræðin felst í því að nemendur þekki muninn á kristni og öðrum trúarbrögðum og kunni skil á grundvallarmun á trúarbrögðum, hugmyndum sem og sameiginlegum þáttum. Jafnframt segir: „Mikilvægt er að sýna nærgætni þegar fjallað er um málefni og viðhorf sem tengjast heimilum, t.d. neyslu og lífsvenjur. Þetta á sérstaklega við um trúar- og lífsskoðanir.“
    Ákvæði um undanþágu frá kennslugreinum þar sem fjallað er um trúar- og lífsskoðanir fólks kom fyrst fram í aðalnámskrá grunnskóla árið 1989. „Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms grunnskóla. Jafnframt ber að tryggja hverjum nemanda sem fær undanþágu jafnvæg tækifæri til menntunar og þroska.“
    Í aðalnámskrá árið 1999 og 2007 er tekið fram að kristin trú hafi verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi og að meira en 95% þjóðarinnar séu skráð í kristin trúfélög og ekki sé hægt að skilja sögu og menningu þjóðarinnar án þekkingar á kristinni trú, siðgæði og sögu kirkjunnar.
    Í aðalnámskrá árið 1999 segir: „Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.“
    Enn fremur segir: „Námi í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði er ætlað að stuðla að menntun og þroska nemenda og efla skilning þeirra á íslensku samfélagi og menningu í fortíð og nútíð.“
    Í sérstökum kafla um kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði segir: „Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi, starfi og kenningu Jesú Krists. Framhald þeirrar sögu er svo saga kristinnar kirkju allt til okkar daga. Í námskránni er leitast við að láta þessa sögulegu framvindu og tengsl hennar við nútímann verða ljós, svo og margvísleg trúarleg og menningarleg áhrif hennar. Mikilvægur hluti þessarar sögu er einnig saga einstaklinga og hreyfinga sem markað hafa spor í þágu trúar, mennta og mannúðar.“
    Í aðalnámskrá 2007 er aðaláhersla á kristna trú í trúarbragðafræðikennslu, einkum evangelíska-lútherska trúarhefð. Vegna víðtækra áhrifa Biblíunnar, trúarbókar kristinna manna og gyðinga, á trú, siðgæði og menningu í heiminum sem og á íslenska tungu, er markmið námsins að efla þekkingu nemenda á henni. Önnur trúarbrögð, svo sem búddadómur, hindúasiður, íslam og gyðingdómur, eru mikilvæg vegna tengsla þeirra við landafræði og sögu heimsins.
    Grunnur þess siðgæðis sem íslenskt þjóðfélag hefur byggt á er í anda kristilegs siðgæðis. „Við eigum ekki að vera feimin við að segja að við séum kristið samfélag,“ sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra í umræðum á Alþingi um kristilegt siðgæði í nóvember 2007. Engu að síður mælti ráðherra fyrir því að kristinfræði yrði ekki lengur kennd sem sérstakt fag. Með gildistöku nýrra grunnskólalaga, nr. 91/2008, var því fallið frá því að kenna kristinfræði sem sérstakt fag.

Núgildandi aðalnámskrá.
    Töluverðar breytingar voru gerðar á almenna hluta aðalnámskrár grunnskóla 2011 í tíð Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra. Námsgreinin kristinfræði er ekki lengur til, sbr. grunnskólalögin 2008.
    Í nýjustu aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 breyttist tilhögun kennslu trúarbragða lítið frá fyrri árum og er trúarbragðafræðsla ein af níu námsgreinum sem falla undir samfélagsgreinar. Er það á valdi hvers skóla eða kennara að skipta þeim tíma sem gefinn er á milli þessara greina. Það er mat viðmælenda við vinnslu frumvarpsins að sá tími sé of naumt skammtaður. Ekkert opinbert samræmi er milli skóla landsins um hversu mikinn tíma þeir nýta í hvert fag innan samfélagsfræðinnar. Kom það fram af hálfu viðmælenda að dæmi eru þess að kristinfræði fái minna vægi í trúarbragðafræði heldur en önnur trúarbrögð.
    Kristni- og trúarbragðafræðikennsla hefur þróast hægt og rólega og erum við langt komin frá þeim markmiðum kennslunnar sem sett voru á miðri 16. öld. Ágreiningsmálin virðast þó ávallt þau sömu, þ.e. hvað á að kenna og hver á að sjá um það. Á síðustu áratugum hefur bæst við ágreiningur um hvernig hægt sé að taka tillit til allra og koma í veg fyrir mismunun vegna trúar- og lífsskoðana en halda samt í þær hefðir sem við höfum sem kristið samfélag.
    Formleg kristinfræðikennsla á Íslandi þar sem kristinfræði var kennd sem sérstakt fag stóð frá miðri 16. öld til ársins 2008 eða í tæp 460 ár. Frá árinu 2008, við gildistöku nýrra grunnskólalaga, hefur kristinfræði verið kennd sem hluti af trúarbragðafræðslu, ekki sem sérstakt fag, eins og áður segir.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að þáttur kristinfræðikennslu verði efldur og að heiti námsgreinarinnar verði kristinfræði og trúarbragðafræði. Í kjölfar breytingar á grunnskólalögum þarf að uppfæra aðalnámskrá grunnskóla, m.a. kafla 6.1., kafla 8.5., kafla 24.1. og kafla 24.2., í samræmi við efni frumvarpsins. Jafnframt þarf að uppfæra og auka námsefni á þessu sviði. Sem dæmi má nefna að hið víðfeðma námssvið samfélagsgreina hefur ekki nema 11,46% af heildartímafjölda nemenda í grunnskólum, sbr. almenna hluta aðalnámskrár 2011. Hlutfallið er því minna en það var áður en ólíkar greinar samfélagssviðsins voru sameinaðar.

Menning okkar og saga mótast af kristni.
    Eðlilegt er að spurt sé hvaða hlutverki kristinfræðikennsla geti gegnt í nútímasamfélagi, þar sem sívaxandi veraldarhyggja og fjölhyggja eru áberandi. Andstæðingar kristinfræðikennslu vísa gjarnan til þess að æ fleiri segi sig úr þjóðkirkjunni og fáir trúi á Guð.
    Flutningsmenn eru þeirrar skoðunar að taka eigi tillit til þeirra trúarbragða sem hafa verið ráðandi í mótun menningar okkar og samfélags. Kristni er samofin sögu þjóðarinnar í meira en þúsund ár. Ekki er hægt að skilja menningu okkar nema að hafa þekkingu á kristnum gildum, svokölluð fjölmenningarhyggja kemur þar ekki í staðinn. Rökin eru þar af leiðandi menningar- og samfélagsleg, eða með öðrum orðum að það sé eðlilegt að þau trúarbrögð sem eru ríkjandi í samfélaginu fái viðeigandi umfjöllun í kennslunni. Þetta er best gert með því að gera breytingar á gildandi kennslufyrirkomulagi á þann veg að kristinfræði fái aukið vægi á ný, eins og var fyrir gildistöku laga nr. 91/2008. Tengsl skóla og okkar kristna menningararfs eru mikilvæg til þess að viðhalda skilningi á grundvallaratriðum hinnar menningarlegu umgerðar þjóðarinnar. Hinn kristni grunnur er þjóðinni ekki minna virði en sagan og tungan. Þess má geta í þessu sambandi að í handbókinni Upplestrarkeppni í grunnskóla segir að kristinfræði henti sérstaklega vel til undirbúnings fyrir vandaðan lestur.
    Flutningsmenn leggja til að áhersla á kristinfræði verði aukin innan trúarbragðafræðinnar. Hér á landi fer innflytjendum sem koma frá ólíkum menningarheimum fjölgandi og eykur það kröfur um umburðarlyndi og gagnkvæma virðingu.
    Með vaxandi fjölgun íslenskra ríkisborgara sem eru af erlendu bergi brotnir eykst nauðsyn þess að brjóta niður múra á milli menningarheilda og trúarhópa og auka þar með umburðarlyndi. Slíkt er best gert með sérstakri fræðslu um ríkjandi trú landsins, kristni, og almennri fræðslu um trúarbrögð heimsins og þar með menningu og siði þjóða og þjóðarbrota. Til að slík fræðsla verði að gagni og nái að stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi þarf hún að ná til allra.
    Árið 2002 gaf Evrópuráðið út tilmæli um að aðildarríkin geri sér grein fyrir því að trúarbrögð séu mikilvægur þáttur í evrópsku samfélagi og að menntun sé lykillinn að baráttunni gegn fáfræði, staðalímyndum og misskilningi varðandi trúarbrögð og leiðtoga þeirra. Evrópunefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (e. European Commission against Racism and Intolerance) telur að menntun gegni mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn skorti á umburðarlyndi og kynþáttafordómum, þar sem nemendur séu fræddir um fjölbreytileika mannlífsins og mismunandi trúarbrögð.
    Áherslan á kristna trú umfram önnur trúarbrögð helgast af menningu okkar og tengslum við sögu kristinnar trúar. Eðlilegt hlýtur að teljast að fjallað sé ítarlegast um þau trúarbrögð sem ríkjandi eru í samfélaginu og þekking á kristni og Biblíunni er forsenda skilnings á vestrænni menningu og samfélagi. Þekking á eigin trú er forsenda til skilnings á trú annarra og leið til umburðarlyndis. Skólanum er ætlað að miðla grundvallargildum þjóðfélagsins, sem hér á landi eru byggð á kristnum rótum. Fræðsla í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði miðlar nemendum þekkingu á eigin rótum.
    Kirkjan veitir mikilvæga þjónustu á ýmsum sviðum og er fólki mikilvæg. Reynslan sýnir að aðstæður geta einnig skapast þar sem fólk leitar mjög til kirkjunnar. Má þar nefna náttúruhamfarir og slys. Um síðustu áramót voru um 232 þúsund manns í þjóðkirkjunni eða um það bil 65% þjóðarinnar. Fleiri kristnir söfnuðir eru í landinu og á síðustu árum hefur fjölgað töluvert í söfnuði kaþólskra.
    Markmið kennslunnar í kristinfræði og trúarbragðafræði á að vera í góðu samræmi við nútímasamfélagið. Kennarar virði ólíkan trúarlegan og menningarlegan bakgrunn nemenda og kennslan byggist á fræðslu. Nemendur læri að setja kristinfræðinámið í stærra þekkingarlegt samhengi. Þeir öðlist siðfræðilegan, siðferðilegan og félagslegan þroska. Öðlist getu til að skilja viðhorf trúarbragða gagnvart einstaklingi, samfélagi og umhverfi. Læri að bera virðingu fyrir fólki af annarri menningu og trú. Geti tekið upplýstar ákvarðanir og rökstutt þær.
    Tengja þarf kennsluna við samfélagið, menninguna og nútímann. Fræða þarf um góðar og slæmar afleiðingar trúarbragða á víðum grundvelli. Nemendur læri að bera virðingu fyrir trú og skoðunum annarra. Lögð verði áhersla á að hlutverk kennara felist í fræðslu en ekki trúboði.
    Mikilvægt er að nemendur fræðist um þá trú sem mótað hefur samfélagið óháð kirkjusókn. Kirkjusókn eða sveiflur í henni frá einum tíma til annars haggar ekki menningararfi þjóðarinnar. Veraldarvæðing og einkatrú ætti ekki að hafa áhrif á það hvað við lærum um sögu okkar og samfélag. Á Norðurlöndum er kristinfræðikennsla yfirleitt skilgreind sem hluti af almennri menntun. Grunnskólar í Danmörku byggja trúarbragðakennslu á kenningum dönsku þjóðkirkjunnar, siðfræði, biblíusögum og sögu kristninnar. Í Noregi segir að skólinn skuli byggjast á grunngildum hins kristna arfs.

Fræðileg kennsla en ekki boðandi.
    Fræðsla í kristnum fræðum á ekki að hafa trúarlega boðun að markmiði. Í því felst að kennslan á að vera fræðileg en ekki boðandi. Í sem grófustu dráttum má skipta kristinfræðikennslu í siðfræðihluta og sagnfræðihluta. Trúfræðsla gæti verið þriðja sviðið en hana má fella undir sagnfræði, sé hlutleysis gætt. Sem siðfræði er trúarbragðafræðsla afar mikilvæg. Í siðfræðilegri fjölhyggju nútímans ætti fræðslan að gera nemendur vel í stakk búna til að fást við spurningar sem snúa að hversdagslífinu og auka umburðarlyndi og gagnkvæman skilning á ólíku lífsviðhorfi. Þrátt fyrir það getur siðfræðin ekki svarað spurningum um tilgang og lífsgildi nema að takmörkuðu leyti. Hún getur ekki farið fram eins og sagnfræðikennsla, sem staðreyndanám, né heldur sem einhvers konar áróðursfærsla fyrir ákveðnum viðhorfum. Kennslan krefst hlutleysis og ætlast er til að hún fáist við raunveruleg vandamál. Mikilvægt er að undirbúa kennara og kennaranema vel fyrir kennslu þessarar námsgreinar.
    Hið trúarlega efni í siðfræðikennslunni hefur einkum mikilvægu fræðsluhlutverki að gegna. Hefðir og saga skipta máli og fyrir Vesturlönd er sérstök áhersla á kristna siðfræði- og trúarhefð, umfram aðra trúarbragðafræði, skiljanleg í ljósi náinna tengsla við siðfræði og sögu kristninnar.
    Dr. Páll Skúlason segir í riti sínu Pælingar I um siðfræðikennslu: „Að vega og meta rök er mikilvægur þáttur siðfræðikennslunnar. Siðfræðikennsla er í raun ekki kennsla, heldur þjálfun. Góð kennsluaðferð í siðfræði er umræða um kröfuna um samkvæmni. Að aga fólk til samkvæmni milli orða og breytni er mikilvægt verkefni siðfræðikennslu því að slíkt er helsta leiðin til að þjálfa fólk til að móta heilsteypta hugsun og taka ákvarðanir vitandi vits um eigin afstöðu og viðhorf.“
    Fjölskylda og nánasta umhverfi eru helstu áhrifavaldar á siðferðisvitund barna en skólanum er ætlað að hvetja börn og unglinga til að huga að forsendum og rökum hugmynda og skoðana.
    Siðfræðikennsla er mikilvæg í skólum og aukin áhersla á kristinfræði ætti að efla trúarlegan, siðferðilegan og félagslegan þroska nemenda.

Trúfrelsi ekki ógnað.
    Skólinn er ekki trúboðsstofnun og því á kennslan ekki að stangast á við trúfrelsi. Það er kirkjunnar og trúfélaganna að sjá um boðun trúarinnar en ekki skólans. Á sama hátt er það ekki hlutverk skólans að vinna ákveðnum trúarskoðunum fylgi þótt fjallað sé um þær í kennslunni.
    Skólanum er ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Hægt er að kenna kristinfræði og vísa til kristindómsins án þess að boða hann. Markmið grunnskólans í lögum er byggt á kennslufræði og aðferðafræði. Kennslufræðin felur í sér markmið og innihald kennslunnar en aðferðafræðin, sem er sjálfstæð grein, fæst við að útfæra kennslufræðina á nákvæman hátt. Kristindómurinn fæst við manninn í heild og tilveru hans og í þeim skilningi er kristinfræðikennslan ekki eitthvað sem takmarkast við trúarlegan þátt mannlífsins.
    Markmið og innihald kennslunnar er innan þess ramma sem fræðsluyfirvöld setja skólum. Kirkjan ákveður ekki hvernig kristinfræði er kennd. Aðferðafræðinni er ætlað að miða að fræðslu og miðlun þekkingar.
    Dr. Sigurður Pálsson segir í riti sínu Kirkja og skóli á 20. öld að skólinn eigi að miðla menningararfinum og stuðla að persónuþroska barna. Trúarlegur þáttur menningarinnar er mótandi en skólinn á þó ekki að vera framlenging á starfi kirkjunnar.
    Með aukinni áherslu á kristinfræði er ekki gert lítið úr mikilvægi þekkingar á öðrum trúarbrögðum. Við hljótum að gangast við því hver við erum, sögulega, siðferðilega og trúarlega.
    Frá kristnitökunni fyrir um þúsund árum hefur kristin kirkja og kenning leikið stórt hlutverk í íslenskri menningu og sögu. Íslensk menning verður því vart skilin án þekkingar á grundvallaratriðum kristindómsins og áhrifum hans á sögu þjóðarinnar. Ef markmið íslenska menntakerfisins er að leggja rækt við sögu og menningu þjóðarinnar ætti ekki að gleyma þeirri staðreynd.

Mikilvægt að þekkja grundvöll siðferðisskoðana.
    Trúin og sagan að baki ólíkum siðferðisviðhorfum er jafn mikilvægur hluti kennslunnar og siðfræðin sjálf. Án þessara þátta er illmögulegt að þekkja uppruna siðferðishugmynda og vinna að samstöðu og skilningi milli ólíkra viðhorfa.
    Foreldrar og samfélagið eiga að kynna trúna fyrir börnunum því ef við gerum það ekki, erum við í raun að velja fyrir þau. Því sá sem ekki kynnist trúnni getur ekki með góðu móti hafnað henni. Við þurfum að treysta börnunum til að velja því valið er mikilvægt hverjum manni. Það gerir kröfu um að við tökumst á við spurningar um okkur sjálf, mannlega tilveru, tilgang lífsins, stöðu mannsins í veröldinni og grundvöll siðferðisskoðana. Af hverju ættum við að takmarka kosti barnanna eða jafnvel forða þeim frá þeim? Kristinfræði getur hjálpað nemendum að taka sjálfstæða og ígrundaða ákvörðun um hvort þeir vilji aðhyllast kristni, önnur trúarbrögð eða jafnvel engin.
    Umræðan um aðskilnað ríkis og kirkju fer vaxandi. Dómsmálaráðherra hyggst á þessu ári hefja undirbúning aðskilnaðar ríkis og kirkju. Meiri hluti landsmanna vill aðskilnað ríkis og kirkju samkvæmt mælingum Gallup. Þetta snertir lítt fræðslu um sögu og menningu þjóðarinnar. Í löndum þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju hefur farið fram, eins og í Svíþjóð, er enn lögð mest áhersla á kristna trú í trúarbragðafræðslu grunnskólanna.

Eðlilegt að fræða sérstaklega um ríkjandi trú landsins.
    Eðlilegt er og æskilegt að kristinfræði sé kynnt æsku þjóðarinnar í meira mæli en gert er. Æska landsins á rétt á að fá að kynnast trúarbrögðunum sem mótuðu það samfélag sem við búum í. Saga landsins og kristni er að mörgu leyti samofin, þess vegna á kristinfræðin að njóta sérstöðu innan veggja grunnskólanna. Eðlilegt er að hún sé því í forgrunni í kennslu trúarbragða og vegna tengsla trúarinnar við sögu Íslands og menningu.
    Tengslin eru menningarleg, söguleg og félagsleg. Okkur ber að kynna áhrifin sem kristnin hefur haft á samfélag okkar. Eðlilegt er því að fræða sérstaklega um ríkjandi trú landsins. Það gerir nemendur læsa á íslenska og vestræna menningu og menningararf.“