Vilja herða á tilkynningaskyldu án frekara valdaframsals

Daniel Bjarmann-Simonsen.

Norsk stjórnvöld vilja skerpa á tilkynningaskyldu vegna lagabreytinga og stjórnvaldsákvarðana í aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES), en eru andsnúin auknu valdaframsali til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB), að sögn innanríkisráðherra Noregs, Daniel Bjarmann-Simonsen.

Eins og Viljinn hefur skýrt frá undanfarna daga, hefur Framkvæmdastjórn ESB lagði til breytingar á þjónustutilskipun sambandsins á þann veg að breytingar á lögum aðildarríkja og stjórnvaldsákvörðun einstakra sveitarfélaga innan þeirra, verði að berast henni og ESA (Eftirlitsstofnun EFTA) eigi síðar en þremur mánuðum fyrir gildistöku. Framkvæmdastjórn ESB vill að auki áskilja sér vald til að stöðva innlendar lagabreytingar á svæðinu, ef hún telur að þær brjóti í bága við reglur þjónustusvæðis markaða ESB eða önnur ákvæði EES-samningsins.

Miklar umræður hafa verið í Noregi að undanförnu um málið og er ljóst að þarlend stjórnvöld vilja tryggja framgang EES-samningsins án þess að færa aukið miðstjórnarvald til Brussel.

„Við styðjum afstöðu Holland, Frakklands, Spánar, Tékklands og annarra, um að vilja ekki færa meira ákvörðunarvald til Brussel. Með þessu viljum við aðeins herða á tilkynningarskyldu sem við höfum nú þegar,“ er haft eftir Daniel Bjarmann-Simonsen í vefmiðlinum ABC.

Þjónustutilskipun ESB frá árinu 2009, hefur frá upphafi mælt fyrir um fyrirfram tilkynningaskyldu vegna lagasetningar sem hefur áhrif á þjónustuviðskipti á svæðinu, en ekki hefur gengið eftir henni hingað til.

„Tilkynningaskyldan er því nú þegar til staðar í Noregi í gegnum EES-samninginn. Hún er eitthvað sem öll ESB og EES-ríki eru nú þegar hluti af í gegnum þjónustutilskipun ESB,“ segir Bjarmann-Simonsen. 

„Framkvæmdastjórn ESB vill að þessu sinni einnig fá réttinn til að taka ákvarðanir um gildistöku innlendra laga. Við erum, ásamt hinum löndunum, andsnúin þeirri breytingu. Við viljum að löndin hafni þeim hluta tillögunnar,“ sagði norski ráðherrann.

Í minnisblaði EES-ríkjanna, Noregs, Íslands og Liechtenstein frá 15. febrúar sl., hvetja þau ESB til að herða tilkynningarskylduna, „ef nauðsyn krefur“ án þess þó að framkvæmdastjórn ESB fái vald til að stöðva lagasetningu áður en hún er samþykkt í ríkjunum. „Vandamálið núna er að tilkynningar skv. þjónustuskipuninni eru ekki að skila sér sem skyldi. Það þýðir að við vitum ekki hvers konar reglur eru settar í framkvæmd, sem kunna að vera í bága við EES-samninginn,“ segir Bjarmann-Simonsen.