Vilja landsmenn tvö sex ára kjörtímabil forseta og fleiri meðmælendur?

Drög að frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Með því eru gerðar breytingar á II. kafla stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um forseta Íslands, ríkisstjórn, verkefni framkvæmdarvalds o.fl. og er almenningi gefinn kostur á að senda inn umsögn við efni ákvæðisins.

Frumvarpið verður til umsagnar í samráðsgáttinni til 22. júlí nk, skv. upplýsingum frá forsætisráðuneytinu.

Formenn þeirra flokka sem nú sitja á Alþingi hafa átt fundi frá upphafi árs 2018 um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar hafa ýmis ákvæði komið til skoðunar. Vinna við þetta frumvarp sem er nú birt til samráðs er nú komin það langt áleiðis að rétt er að leita álits og athugasemda frá almenningi um efni þess í samráðsgátt stjórnvalda.

Sérstaklega er áréttað að birting í samráðsgátt á þessu stigi felur ekki í sér skuldbindingu af hálfu formanna flokkanna til að standa að framlagningu frumvarpanna í þessari mynd á Alþingi.

Í frumvarpinu er lagt til að 5. gr. stjórnarskrárinnar orðast svo:

Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum og almennum kosningum af þeim er kosningarétt  hafa til Alþingis. Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 2,5% kosningabærra manna og mest 5%. Sá sem flest fær atkvæði, ef fleiri en einn eru í kjöri, er rétt kjörinn forseti. Ef aðeins einn maður er í kjöri er hann rétt kjörinn án atkvæðagreiðslu.

Að öðru leyti skal ákveða með lögum um framboð og kjör forseta og má þar ákveða að tiltekin tala meðmælenda skuli vera úr hverju kjördæmi í hlutfalli við kjósendatölu þar.

Formenn stjórnmálaflokkanna ræddu breytingar á stjórnarskránni á Þingvöllum á dögunum í bústað forsætisráðherra.

Helstu aðrar efnisbreytingar sem gerð er tillaga um í frumvarpinu eru eftirfarandi:

  1. Kjörtímabil forseta Íslands verði lengt í sex ár og áskilið að sami maður geti ekki gegnt embætti forseta samfellt lengur en tvö kjörtímabil, eða alls 12 ár.
  2. Fortakslaust (lagalegt) ábyrgðarleysi forseta Íslands á stjórnarathöfnum verði afnumið og lagt til að ábyrgðarleysi sé bundið við embættisathafnir sem hann framkvæmir að tillögu og á ábyrgð ráðherra.
  3. Mælt verði fyrir um heimild Alþingis til að fela ríkissaksóknara að fara með ákæruvald vegna ætlaðra embættisbrota ráðherra í stað þess að þingið gefi sjálft út ákæru. Þá er lagt til að ákvæði um landsdóm verði fellt úr stjórnarskrá og kveðið verði á um rannsókn mála, útgáfu ákæru og meðferð fyrir dómi með almennum lögum.
  4. Orðalag ákvæða um myndun og hlutverk ríkisstjórnar verði skýrt og fært til samræmis við áralanga framkvæmd.
  5. Ákvæði um ríkisstjórnarfundi verði gerð ítarlegri og samhæfingarhlutverk forsætisráðherra styrkt.
  6. Þingræðisreglan verði bundin í stjórnarskrá og mælt fyrir um afsögn ríkisstjórnar eða tiltekins ráðherra við vantraust Alþingis.
  7. Mælt verði fyrir um hlutverk starfsstjórnar þegar ríkisstjórn, sem beðist hefur lausnar, situr áfram þar til ný ríkisstjórn hefur verið skipuð.
  8. Ákvæði um skipun embættismanna verði færð til samræmis við þróun sem orðið hefur á reglum um opinbera starfsmenn og þá meginreglu að fagleg sjónarmið eigi að ráða við skipanir í opinber embætti.
  9. Ákvæðum um aðkomu handhafa framkvæmdarvalds, þ.e. ráðherra og forseta, að kvaðningu Alþingis og frestun funda þingsins verði breytt í grundvallaratriðum með það að markmiði að þingið fari að fullu með forræði á eigin störfum.
  10. Mælt verði fyrir um skyldu forseta Íslands til að leita eftir áliti forseta Alþingis og formanna þingflokka áður en tekin verði ákvörðun um þingrof að tillögu forsætis­ráðherra.
  11. Mælt verði fyrir um heimild Alþingis til að fella úr gildi lög sem forseti synji staðfestingar skv. 26. gr. stjórnarskrár og þá með þeim afleiðingum að þjóðaratkvæðagreiðsla fari ekki fram.
  12. Formleg heimild forseta til að fella niður saksókn verði afnumin.
  13. Mælt verði fyrir um embætti ríkissaksóknara með það að markmiði að tryggja embættinu sambærilegt sjálfstæði og vernd og dómsvaldinu.

„Tvö efnisatriði frumvarpsins gefa tilefni til umræðu um alþjóðlegar skuldbindingar. Í fyrsta lagi gerir frumvarpið ráð fyrir því að fortakslaust ábyrgðarleysi forseta á stjórnarathöfnum sé afnumið og bundið við þær athafnir sem hann framkvæmir að tillögu ráðherra. Þessi breyting er í samræmi við 27. gr. Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn frá 17. júlí 1998 sem Ísland hefur fullgilt, sbr. einnig lög nr. 43/2001.

Í annan stað var fjallað um ákvæði 14. gr. stjórnarskrár í dómi Mannréttinda­dómstóls Evrópu frá 23. nóvember 2017 í máli Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu. Í dóminum var meðal annars tekin afstaða til þess hvort það fyrirkomulag að Alþingi færi með ákæruvald í málum vegna brota ráðherra í embætti og að landsdómur dæmdi í þeim málum bryti gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð, þar á meðal hvort landsdómur teldist sjálfstæður og óvilhallur dómstóll í skilningi sáttmálans. Íslenska ríkið var sýknað í málinu og verður dómurinn ekki skilinn á aðra leið en þá að núgildandi fyrirkomulag samrýmist ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu sem Ísland hefur fullgilt og lögfest, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Leiðir einnig af þessu að það er samrýmanlegt sáttmálanum að Alþingi sé áfram falið að mæla fyrir um inntak ráðherraábyrgðar og nánari meðferð slíkra mála, líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir,“ segir í drögum að greinargerð með frumvarpinu.