Vilja leggja af styrki til flokka, ráðherrabíla, bílstjóra og lækka laun þingmanna

Gunnar Smári Egilsson, aðalforsprakki Sósíalistaflokks Íslands.

Smám saman er stefnuskrá Sósíalistaflokksins fyrir komandi kosningar að líta dagsins ljós. Nú um verslunarmannahelgina kynnti flokkurinn það sem hann kallar sjöunda tilboð sitt til kjósenda og ber það yfirskriftina: „Burt með elítustjórnmál“.

  • Þingmenn Sósíalista munu lækka laun sín með því að gefa hluta þeirra til Vorstjörnunnar
  • Aðstoðarfólk þingflokks sósíalista mun starfa fyrir hreyfingu almennings, ekki aðeins þingflokkinn
  • Styrkir til Sósíalistaflokksins verða notaðir til að byggja upp hreyfingu hinna fátæku, ekki flokkinn
  • Sósíalistar munu lækka laun kjörinna fulltrúa við fyrsta tækifæri
  • Sósíalistar munu leggja af ofurstyrki elítuflokkanna við fyrsta tækifæri
  • Sósíalistar munu leggja af ráðherrabíla, einkabílstjóra og allt slíkt snobb og tildur. Stjórnmálafólk eru þjónar, ekki herrar

Þess má geta, að Vorstjarnan sem þarna er nefnd til sögunnar, er styrktarsjóður á vegum Sósíalistaflokksins sem styður hin verr settu í að byggja upp og reka hagsmunabaráttu sína í skipulögðum hópum, félögum og samtökum.