Vilja stofna embætti tæknistjóra ríkisins

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, hefur ásamt fjórum öðrum þingmönnum Pírata og Samfylkingarinnar lagt fram tillögu til þingsályktunar um embætti tæknistjóra ríkisins.

Verði tillagan samþykkt verður fjármála- og efnahagsráðherra falið að undirbúa lagafrumvarp sem miði að því að stofnað verði embætti tæknistjóra ríkisins sem hafi yfirumsjón með tæknilegum innviðum Stjórnarráðsins, samþættingu vefkerfa og forritunarviðmóta og stöðlun þróunarferla og gæðastýringar við hugbúnaðargerð, hafi utanumhald um opin gögn, annist ráðgjöf um upplýsingaöryggismál og hafi umsjón með útboðum sem snúa að hugbúnaðarþróun og öðru sem snýr að því að tryggja gæði rafrænnar þjónustu hins opinbera gagnvart almenningi.

Í greinargerð með tillögunni segir að ör tölvuvæðing stjórnkerfisins á undanförnum árum hafi leitt til þess að flestar ríkisstofnanir hafa þróað ýmiss konar sérhæfð hugbúnaðarkerfi til að geta sinnt hlutverki sínu betur en ella. Umræddur hugbúnaður sé í mjög mismunandi ásigkomulagi.

„Sumu hefur ekki verið haldið við, öðru viðhaldið í mýflugumynd og enn annað er í stöðugri þróun. Hugbúnaðurinn er þróaður á mismunandi málum, í mismunandi aðgerðasöfnum, sumt er verulega úrelt eða viðhaldi þess hefur verið hætt hjá framleiðanda. Mikill hluti hugbúnaðarins hefur öryggisgalla sem ekki hefur verið bætt úr og vafalaust eru margir óþekktir gallar. Nánast ekkert af hugbúnaðinum hefur gæðahandbók, sjálfvirka prófun eða áætlun fyrir lagfæringar á þekktum göllum. Ýmsar ríkisstofnanir hafa gert sér grein fyrir þessu vandamáli og hafa leitast við að laga það með ýmsu móti en umræddar stofnanir hafa litla burði til að sinna hugbúnaðarþróun, enda er það ekki hlutverk þeirra. Þá eru verkefni oft boðin út, en verktakar hafa þá gjarnan yfirburðasamningsstöðu gagnvart verkkaupum, því að þótt stofnanir ríkisins viti vel hvaða sérhæfðu vandamál þau leitast við að leysa er sjaldan þekking innan húss til að tryggja góða tæknilega framkvæmd,“ segir ennfremur í greinargerðinni.