Vilja takmarka flug en birta svo myndir af skíðafríinu á instagram

Boris Johnson.

Boris Johnson, fv. borgarstjóri Lundúna og utanríkisráðherra Breta, og að margra mati næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins, gagnrýnir umhverfisverndarsinnana sem staðið hafa fyrir mótmælum í miðborg Lundúna sl. viku fyrir hræsni og tvískinnung í málflutningi sínum.

Í vikulegum pistli sínum í dagblaðinu Telegraph, bendir Johnson á að heimsþekktar stjörnur á borð við Emmu Thompson hafi tekið þátt í mótmælaaðgerðunum, en velta megi því fyrir sér hvort saman fari orð og efndir hjá mótmælendunum sjálfum þegar kemur að umhverfismálum.

„Auðvitað get ég tekið undir margt sem mótmælendurnir segja, en ég er því ekki fylgjandi að lama samgöngur í stórkostlegustu borg veraldar og koma í veg fyrir að fólk komist til vinnu sinnar,“ segir hann.

„Ég vil ekki að umhverfissinnar segi mér að flugferðir eigi að aðeins að nota í neyð þegar hægt er að skoða myndir úr þeirra eigin skíðaferðum erlendis á instragram,“ bætir hann við.

Boris skaut jafnframt föstum skotum að Óskarsverðlaunahafanum Emmu Thompson sem talaði til fjölmiðla úr bleikum bát í Oxford Circus, sem hafði verið lagt þannig að umferð fór öll úr skorðum.

„Maður gnístir yfir tönnum yfir stjörnum sem segja manni hversu mörgum trjám þær hafa plantað til að kolefnisjafna sporin vegna flugferða þeirra til og frá Los Angeles.“

Johnson vakti athygli fyrir auknar umhverfisáherslur sínar sem borgarstjóri Lundúna. Hann lagði á sérstaka miðborgarskatta á bíla og fór flestra ferða sinna á reiðhjóli, en hann segist orðinn dauðþreyttur á að hlusta á ungt fólk meðal mótmælenda halda því fram að þeirra skoðanir séu merkilegri en hans eigin, af því þeirra sé framtíðin.

„Með allri virðingu og auðmýkt fyrir þeim yngri eru, þá ætla ég mér að vera á lífi um langa framtíð,“ segir hann og bætir því við að hann ætli sér að birta pistil í dálki sínum í blaðinu til að minnast þúsund ára landvinninga Normanna í Englandi, árið 2066, en Johnson hefur skrifað fjölda metsölubóka um söguleg efni, t.d. mikil stórvirki um helstu hetju hans og fyrirmynd, Sir Winston Churchill fv. forsætisráðherra.