Vill að borgarstjóri hleypi sérfræðingum í tölvu sína til að finna póstana

Kári Stefánsson, prófessor í læknisfræði og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fullyrðir í grein sem hann birtir í Fréttablaðinu í dag, að einbeittur vilji hafi staðið að baki eyðingu tölvupósta millum Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og undirmanns hans, Hrólfs Jónssonar skrifstofustjóri, vegna svonefnds braggamáls.

Segir Kári í grein sinni, að borgarstjóri hafi látið eyða umræddum tölvupóstum:

„Þetta er sami Hrólfur og hefur lýst því yfir að hann beri ábyrgð á braggasukkinu við Nauthólsvík. Það var engin tilviljun sem réði því hvaða tölvupóstum var eytt, það var ekki bara einhver sem af slysni ýtti á takka, vegna þess að sömu póstum var eytt af eftirritunardiskum. Það var greinilega einbeittur vilji að baki eyðingu póstanna,“ segir Kári.

Hrólfur Jónsson.

„Sú skýring sem þú veittir upphaflega á því að póstunum hafi verið eytt var sú að Hrólfur ynni ekki lengur hjá borginni. Þetta mátti sem sagt skilja sem svo að þér þætti það ósköp eðlilegt að þegar menn í opinberum störfum hyrfu frá þeim væri tölvupóstum sem lúta að vinnu þeirra eytt. Mér skilst að þetta stangist jafnvel á við lög og gerir það í það minnsta við heilbrigða skynsemi og er aldeilis fáránlegt af stjórnmálamanni að láta herma upp á sig þvílíkt axarskaft. Það er nefnilega næsta víst að það gæti ekkert það verið í tölvupóstunum eyddu sem væri verra fyrir þig en að vera staðinn að því að eyða þeim.

Þegar einhverjir fóru að efast um að póstunum hefði verið eytt staðfesti innri endurskoðun borgarinnar að þeim hefði svo sannarlega verið eytt, en bættu því við að þótt þeim hefði verið eytt þyrfti það alls ekki að hafa verið af annarlegum hvötum. Þar sýndi innri endurskoðun borgarinnar að hún hefur snöggtum meira ímyndunarafl en ég. Þótt líf mitt lægi við gæti ég ekki nefnt aðra þá ástæðu fyrir því að eyða svona póstum en þá sem hlyti að teljast annarleg.“

Og Kári bendir á að enginn vandi sé að komast að hinu sanna í málinu.

„Þessir póstar sitja að öllum líkindum enn á harða drifinu á tölvunni þinni og þarf ekkert meira til en nokkra klukkutíma fagmanna til þess að ná í þá. Það væri ekki bara skynsamlegt heldur sjálfsagt að þú létir sækja tölvupóstana þannig að borgarbúar sjái að það sé ekkert óhreint í því pokahorni. Ef þú gerir það ekki ertu í raun réttri búinn að játa glæpinn og segja okkur að í póstunum hafi verið nokkuð það sem þoli ekki dagsins ljós og sé svo mikilvægt að fela að þú sért reiðubúinn að fórna til þess borgarstjóraembættinu,“ segir hann í opnu bréfi til borgarstjóra í Fréttablaðinu í dag.