Vill að eftirlitsnefndin segi af sér og lögreglumenn verði beðnir afsökunar

Lögreglan: Hari

„Ég átti langa starfsævi í lögreglunni. Og átti þar sæmilegan feril. Ég ákvað strax að halda mér utan pólitísks þras og gefa hvergi upp minn pólitíska áhuga, enda tel ég lögreglumenn vera fólk sem ekki má bendla við neitt. Ég hélt þessum kúrs alla tíð en þurfti samt að horfa á góða menn dæmda fyrir hugsjónir sínar. Hugsjón er eitt, illmælgi annað. Nú um stundir virðist illmælgin ein öllu ráða. Enginn er undanskilinn. Hugsjónir fá ekki vöxt.“

Þetta skrifar Arnþór Heimir Bjarnason, lögreglumaður til þrjátíu og fimm ára, í einlægri færslu á fésbókinni þar sem hann tekur málstað tveggja starfsbræðra sinna sem komu að gleðskap á Þorláksmessu í fyrra þar sem grunur var um sóttvarnabrot og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sótti ásamt fleirum. Lögreglumennirnir hafa verið gagnrýndir fyrir samskipti sín á milli af eftirlitsnefnd um lögreglu, en samskiptin voru hljóðrituð eins og venja er. Svo virðist sem einhver hafi lekið þeim samskiptum til fjölmiðla.

Það blöskrar Arnþóri:

„Nema hvað að nú blöskrar mér, lögreglumenn sem voru að sinna vinnunni sinni eru niðurlægðir af einhverri nefnd fyrir að hafa rætt skoðanir sínar eftir að þeir höfðu leyst málið. Engin vitni, heldur upptaka sem lögreglumennirnir höfðu á sér. Það sem verra er að nefndin ákvað að birta samtalið þótt það kæmi málinu ekkert við og gaf í skyn að lögreglan hefði brotið af sér. Hvert erum við komin? Ég hét trúnaði fyrir 35 árum og hef haldið hann.

Arnþór Heimir Bjarnason.

Nú hefur nefnd á vegum ríkisins brotið þann trúnað, að mínu mati! Samkvæmt því þá tel ég mig ekki bundinn af eiði mínum frekar en aðrir lögreglumenn. Ég hef vakað yfir stjórnmálamönnum, vopnaður og ekki. Ég hef heyrt það fólk segja ýmislegt innanhúss og svo annað utanhúss og á þingi. Ef það verður leyfilegt að einkasamtöl og tal lögreglumanna verði aðgengilegt öllum þá skil ég það þannig að þagnareiður minn og ríkisins hafi verið brotinn og ég, og aðrir, [séu þar með] frjálsir til að segja söguna.“

Og færslu sína endar lögreglumaðurinn fyrrverandi Arnþór Heimir með þessum orðum:

„Ég tel að það eina sem rói mig sé að nefndin segi af sér og afsökunarbeiðni komi frá ríkinu, til allra lögreglumanna á þessu landi. Fólksins sem stóð vörð um lýðræðið fyrir fáeinum árum síðan.“