Vill að VG styðji Samfylkingu í andstöðu við hert útlendingalög

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar / Samfylkingin.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er mjög ósáttur við frumvarp dómsmálaráðherra um hert útlendingalög, sem lagt var fram á Alþingi í gær, eins og Viljinn skýrði frá.

„Áður en fyrrverandi dómsmálaráðherra sagði af sér kynnti hún frumvarp um breytingu á lögum um útlendinga (alþjóðleg vernd og brottvísunartilskipunin).

Frumvarpið er afleitt. Það gerir endurupptöku mála enn erfiðari, takmarkar andmælarétt og lögboðinn umhugsunarfrest. Ríkari sönnunarkröfur eru gerðar en umsækjendur fá samt styttri tíma til að afla gagna. Auðvelda á brottvísanir til ríkja á borð við Ungverjaland, sem er þekkt fyrir harðneskjulega meðferð á flóttafólki, og Grikkland sem ræður ekki við þann fjölda sem þangað kemur. Það sem er þó kannski grimmast er að það á að koma í veg fyrir að nánustu aðstandendur kvótaflóttafólks geti fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar,“ segir Logi í færslu á fésbókinni.

„Ég leyfði mér að vona að nýr dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, myndi snúa við blaðinu, eða amk gera nauðsynlegar breytingar á ómannúðlegu frumvarpi. En hún leggur það nú fram nánast óbreytt.

Það er því ekki hægt að kenna einum stjórnmálamanni um harðneskjulega stefnu í útlendingamálum. Flokkslínan virðist skýr. En nú verða Vinstri-græn að tala skýrt líka og leggjast á árar með Samfylkinguna til að koma í veg fyrir að þetta frumvarp verði að lögum,“ bætir Logi við.

Þess má geta að um stjórnarfrumvarp er að ræða, sem þýðir vitaskuld að það hefur verið samþykkt í ríkisstjórn (meðal annars af ráðherrum Vinstri grænna) auk þess sem þingflokkar stjórnarflokkanna (að Vinstri grænum meðtöldum) hafa samþykkt framlagningu þess á þingi.