Vill afnema bifreiðaskatt til að liðka fyrir kjaraviðræðum

Jón Gunnarsson.

Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og fv. samgönguráðherra, telur að hægt sé að lækka skatta varanlega enn frekar en áformað er með skattaútspili ríkisstjórnarinnar. Leggur hann til að bifreiðaskattar verði afnumdir, en það væri aðgerð upp á sjö milljarða króna og kæmi fólkinu í landinu beint til góða í auknum ráðstöfunartekjum.

Í umræðum um störf þingsins á dögunum setti Jón fram þessar tillögur, en hann hefur talað fyrir vegatollum til þess að framkvæma strax mikilvægar samgöngubætur.

„Ég tel að út frá því sé mjög mikilvægt að við horfum á þessa leið til uppbyggingar á flýtiframkvæmdum í samgöngukerfinu, ekki varanlegan skatt heldur tímabundin þjónustugjöld sem lögð eru á til þess að standa straum af kostnaði líkt og gert var við Hvalfjarðargöngin. Síðan er innheimtu hætt þegar framkvæmdir hafa verið greiddar upp,“ sagði hann.

„Sé að skapast aukið svigrúm í ríkisfjármálum umfram það sem birtist okkur í tillögu ríkisstjórnarinnar um 18.000 milljónir sem yrðu notaðir í skattkerfisbreytingar til þeirra sérstaklega sem minna mega sín í samfélaginu tel ég að við eigum að lækka frekar varanlega skatta. Eðlilegast í því samhengi væri að afnema bifreiðaskattinn sem fyrst var lagður á 1988 og var síðan hækkaður 1990. Það væri varanlegt afnám skatta eins og þegar fjármálaráðherra afnam varanlega alla tolla og öll vörugjöld af vörum. Með því að taka þessa ákvörðun myndum við hækka framlag ríkisstjórnarinnar til hinna vinnandi stétta úr 18.000 milljónum í 25.000 milljónir vegna þess að bifreiðagjöldin eru um 7 milljarðar á ári,“ sagði Jón.