Vill alþjóðlega úttekt á ofsóknum gegn kristnu fólki um allan heim

Jeremy Hunt utanríkisráðherra Breta og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á fundi í Lundúnum á dögunum.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Breta, hefur kallað eftir alþjóðlegri úttekt á ofsóknum gegn kristnu fólki um allan heim, sem hann segir alvarlegt vandamál sem fari vaxandi. Hann viðurkennir að staða kristins fólks hafi einnig versnað heima fyrir.

Utanríkisráðherrann segir að bresk stjórnvöld séu ákveðin í að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þessi mál verði tekin föstum tökum. En um leið sé kominn tími til að huga að því heima fyrir hvort ekki hafi verið gengið of langt á hlut kristinna í rétttrúnaði nútímans í bresku samfélagi, en nýleg skoðanakönnun sýnir að helmingur kristinna Breta telur sig hafa orðið fyrir fordómum vegna trúar sinnar.

Breskir fjölmiðlar hafa skýrt frá ýmsum dæmum þessa efnis undanfarið, til dæmis hjúkrunarfræðingi sem missti vinnuna eftir að hafa gefið sjúklingi einum biblíu til lestrar á sjúkrabeði sínum.

Athyglin hefur beinst að ofsóknum gegn kristnu fólki eftir voðaverkin í Sri Lanka um páskana, þar sem öfgahópur islamista sem tengir sig við íslamska ríkið, myrti meira en þrjú hundruð kirkju- og hótelgesti að morgni páskadags. Samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna falla hundruð kristinna í hverjum mánuði af völdum margvíslegra ofsókna.

Athyglin hefur í þeim efnum ekki síst beinst að Miðausturlöndum, Afríku og Asíu. Að sögn Hunt eru kristnir sá trúarhópur í heiminum sem verður mest fyrir barðinu á ofsóknum. Þannig er talið að 245 milljónir kristinna manna sæti ofsóknum vegna trúar sinnar og ríflega fjögur þúsund létu lífið á síðasta ári af þeim sökum.

Í Miðausturlöndum voru í upphafi síðustu aldar um 20% íbúanna kristinnar trúar, en hlutfall þeirra er nú 5%. Í mörgum múslimaríkjum sæta kristnir miklu aðkasti og ofsóknum. Á hinn bóginn hafa hin kristnu vesturlönd tekið islam opnum örmum og virt rétt múslima til að iðka trú sína.