Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Með frumvarpinu verður bannað að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað.
Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðruprik sem og matarílát, drykkjarílát og bollar úr frauðplasti. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.
Sömuleiðis er lagt til að óheimilt verði að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla og matarílát úr öðru plasti en frauðplasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.
Þá er í frumvarpinu lagt til skilyrðislaust bann við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun eða svokallað oxó-plast. Vörur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum vissar tegundir plastpoka, en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu.
Einnota drykkjarílát úr plasti sem eru með tappa eða lok úr plasti verður samkvæmt frumvarpinu einungis heimilt að setja á markað ef tappinn eða lokið, er áfastur ílátinu á meðan notkun þess stendur yfir.
Í tilfelli plastvaranna sem frumvarpið tekur til eru fáanlegar á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í staðinn.
Í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu segir að meginmarkmið frumvarpsins sé að draga úr áhrifum af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og styðja við notkun endurnotanlegra vara en með því er innleidd ný Evróputilskipun sem er fyrst og fremst beint að ýmsum algengum plastvörum sem finnast helst á ströndum. Tilskipuninni er einnig ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara.
Umsögnum um frumvarpið skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 16. janúar 2020.Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, hringrásarhagkerfi, plastvörur) í samráðsgátt stjórnvalda