Ekki er tilefni til að efna til atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna Sjálfstæðisflokks vegna þriðja orkupakkans miðað við inntak málsins og eðli þess, að mati Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokks.
Rætt er við hann í Morgunblaðinu í dag. Aðspurður segir hann engin fordæmi fyrir því að heimildinni hafi verið beitt og að hún hafi nýlega komið inn í skipulagsreglur flokksins.
Viðmælendur Morgunblaðsins úr hópi andstæðinga þriðja orkupakkans innan flokksins vilja sumir flýta flokksráðsfundi sem halda á í september nk. og halda hann áður en þing kemur saman og ræðir orkupakkann.
Birgir segir það ekki raunhæfan kost. „Flokksráðsfundur er haldinn af öðru tilefni og til þess að fjalla almennt um stefnumörkun flokksins, en ekki til að taka afstöðu til einstakra mála. Það er nokkuð umhendis að færa jafn stóran og viðamikinn fund til,“ segir hann og vísar til þess sem fyrr kom fram, að annar vettvangur verði notaður til þess að ræða málin.
Matthildur Skúladóttir, stjórnarmaður í Verði – fulltrúaráði sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík, segir við blaðið að andstæðingar orkupakkans séu svekktir yfir því hvernig komið er og margir séu óánægðir með ríkisstjórnina.