Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir iðnaðarráðherra vill að kannaðir verði kostir þess að orkufyrirtækin selji raforku til útlanda gegnum sæstreng.
Aðeins fyrir fáeinum mánuðum sögðu forystumenn ríkisstjórnarinnar í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans, að engar líkur væru á því að slíkur strengur yrði lagður á næstunni.
Iðnaðarráðherra sagði í þættinum Víglínunni á Stöð 2 nú síðdegis, að sala á raforku gegnum sæstreng geti aukið fjölbreytni og samkeppni í íslenskum raforkuiðnaði.
„Ég náttúrulega skildi það aldrei alveg, það samhengi hlutanna að það væri einhvers konar landráð að fara í útflutning í gegnum streng. Við erum í dag með útflutning í gegnum ál. Fyrir mér er það bara hagsmunamat og ég geri enga athugasemd við að það sé kannað hvort að hugsanlega það geti verið góð hugmynd fyrir Íslendinga að selja raforku til útlanda. Við gerum það bara í öðru formi í dag. Það er nú þannig að þessir strengir, það er ekki gefið að við séum bara að flytja orku út, heldur til dæmis í Noregi er hellingur af raforku flutt inn,“ sagði Þórdís Kolbrún í þættinum.