Vill Katrínu fyrir utanríkismálanefnd: „Hér duga ekki tvíræð skilaboð“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

„Það sem situr eftir heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna í gær er að hljóð og mynd innan ríkisstjórnarflokkanna fer ekki saman,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar í færslu á fésbókinni.

„Ríkisstjórnin heldur áfram að senda frá sér óskýr og tvíræð skilaboð til alþjóðasamfélagsins í varnar og öryggismálum sem er alvarlegt og maður spyr sig hvort Guðlaugur Þór og Pence hafi setið sama fundinn. Þeir höfðu að minnsta kosti ólika upplifun á niðurstöðu mála; um aðkomu Kínverja með verkefninu Belti og braut og Bandaríkjamanna að Norðurslóðum,“ bætir hún við.

Þorgerður Katrín segir ljóst að alþjóðamálin og þátttaka okkar þar muni leika stærra hlutverk í íslensku samfélagi en áður. Það sé vont að sjá að stjórnarflokkarnir séu ekki samstíga og að bakland flokkanna sé tvístígandi þegar það kemur að því að vera virkur þátttakandi í alþjóðasamstarfi.

„Ég er handviss um að fjölþjóðasamningar séu af hinu góða og gagnist okkur Íslendingum betur en tvíhliða samningar. En mér finnst samt sem áður varhugavert að blanda saman efnahagsmálum og öryggismálum líkt og gert var í gær.

Frá fundi forsætisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna í gær.

Það gengur ekki að ríkisstjórnin ræði þessi málefni fyrst við Bandaríkjamenn sbr. fundur þeirra við Pence í gær og við Pompeo fyrr á árinu. Því mun ég óska eftir því að forsætisráðherra mæti fyrir fund utanríkismálanefndar til að ræða heimsókn varaforseta Bandaríkjanna og reyna þannig að átta okkur betur á því hver stefna ríkisstjórnarinnar er.

Hér duga ekki áframhaldandi tvíræð skilaboð,“ segir formaður Viðreisnar.

Frá fundi utanríkisráðherra Íslands og Bandaríkjanna í Washington á dögunum. Þeir hittust aftur í Reykjavík fáeinum mánuðum síðar.