Vill ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um þriðja orkupakkann

Inga Sæland./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn — það sem í daglegu tali er nefnt þriðji orkupakkinn.

Í tillögunni felst að Alþingi álykti að heimild ríkisstjórnarinnar til að staðfesta ákvörðunina verði borin undir almenning í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í greinargerð með tillögunni segir að fyrirhuguð innleiðing þriðja orkupakkans hafi valdið miklum deilum í samfélaginu. Með umræddri þingsályktunartillögu sé verið að leggja til að reglur Evrópusambandsins um orkumál séu teknar upp í EES-samninginn.

„Innleiðing EES-gerða í EES-samninginn fer fram með þingsályktun um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara. Þar sem um þingsályktun er að ræða hefur forseti Íslands ekki synjunarvald eins og gildir um lagafrumvörp. Því hefur almenningur ekki færi á að hvetja forseta með undirskriftasöfnun eða öðrum hætti til að synja málinu staðfestingar og leggja það þar með í þjóðaratkvæði. Flutningsmaður telur því nauðsynlegt að málið fari í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu eftir nánari reglum laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.

Samkvæmt 4. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skal þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að þingsályktunartillaga hefur verið samþykkt á Alþingi,“ segir þar ennfremur.