Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, telur að ríki eins og Kína og Indland eigi að koma að málum í því skyni að hindra upplausn samningsins um meðaldræg kjarnavopn, INF-samningsins. Bandaríkjamenn og Rússar hafa sagt sig frá samningnum.
Um langt árabil hafa Bandaríkjamenn sakað Rússa um að hafa ákvæði samningsins að engu. Undir lok árs 2018 gaf Bandaríkjastjórn til kynna að hún mundi segja sig frá samningnum ef Rússar bættu ekki ráð sitt. Þar sem þeir gerðu það ekki tilkynnti utanríkisráðherra Bandaríkjanna föstudaginn 1. febrúar að sex mánaða uppsagnarfrestur samningsins tæki að líða. Laugardaginn 2. febrúar sögðu Rússar sig einnig frá samningnum.
Fimmtudaginn 7. febrúar birti Deutsche Welle frétt um að Jens Stoltenberg hefði sagt við þýska fjölmiðlamenn hjá Funke-fyrirtækinu að Rússar hefðu alltaf kvartað undan að ríki eins og Kína, Indland, Pakistan og Íran mættu framleiða meðaldrægar flaugar en Rússum væri bannað að gera það.
„Í þessu felst þó engin afsökun fyrir að brjóta gegn samningnum,,“ sagði Stoltenberg. „Þvert á móti ætti þetta að hvetja til þess að við styrktum samninginn með aðild fleiri ríkja að honum.“
Hvorki Bandaríkjamenn né Rússar hafa útilokað að í stað INF-samningsins frá 1987 komi nýr samningur með fleiri aðildarríkjum þótt Rússar hafi lýst efasemdum um að unnt verði að komast að sameiginlegri niðurstöðu ríkjanna.
Ronald Reagan Bandaríkjaforseti og Mikhaíl Gorbatsjov Sovétforseti gerðu INF-samninginn árið 1987. Með honum er ríkjum þeirra bannað að eignast, framleiða eða gera tilraunir með stýriflaugar á skotpöllum á landi dragi þær 500 til 5.500 km.
Með samningnum var bundinn endir á áróðursstríð sem hófst með því að Sovétmenn settu upp flaugar með nærri 400 kjarnaoddum sem beint var í áttina að vesturhluta Evrópu. Bandaríkjamenn svöruðu með því að setja upp Pershing-stýriflaugar í Evrópu.
Ýmsir sérfræðingar hafa viðrað þá skoðun að ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að segja sig frá INF-samningnum kunni einnig að snúa að Kínverjum sem hafa markvisst unnið að endurnýjun herafla síns.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkjamenn muni hefjast handa og þróa kjarnorkuvopn nema Rússar og Kínverjar skrifi undir nýjan samning.
„Við eigum í raun engan annan kost,“ sagði Trump í stefnuræðu sinni þriðjudaginn 5. febrúar. „Við getum ef til vill gert annars konar samning og bætt Kínverjum og öðrum við hann eða ef til vill tekst það ekki – fari svo munum við verja mun hærri fjárhæðum og sýna mun meira hugvit við nýsköpun en allir aðrir.“
Þar sem Kínverjar standa ekki að INF eru þeir ekki bundnir af samningnum. Á árinu 2015 setti kínverski herinn upp Dong-Feng 26 meðaldrægt eldflaugakerfi. Flauginni má skjóta 3.000 til 4.000 km og hún nær til flestra bandarískra herstöðva við austurhluta Kyrrahafs.
Kínverjar eiga einnig að minnsta kosti þrjú langdræg eldflaugakerfi. Með einu þeirra er unnt að senda flaugar í allt að 11.700 km fjarlægð.
Indverjar hafa einnig þróað langdrægt eldflaugakerfi sem hluta af svonefndu Agni-eldflaugaverkefni sínu. Talið er að Agni-5 muni draga 5.000 til 8.000 km. Agni-3 er þegar í skotstöðu en þær flaugar draga 3.000 til 5.000 km.
Íranir ráða yfir ýmiss konar eldflaugakerfum, þó án kjarnaodda. Þar á meðal eru meðaldrægar flaugar sem nota má til árása á bandamenn Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum og Evrópu. Þegar Trump sagði Bandaríkin frá kjarnorkusamningnum við Írani frá 2015 nefndi hann meðal annars eldflaugaáætlun þeirra sem eina af ástæðum þess.
Í vopnabúrum Pakistana eru tvær gerðir meðaldrægra eldflauga: Shaheen 2 og Ghauri.
Eins og málum er nú háttað hafa Bandaríkjamenn og Rússar sex mánuði til að jafna ágreining sinn og bjarga INF-samningnum.
Af vardberg.is, birt með leyfi.