Vill samstöðu á miðjunni um hælisleitendur: „Getum ekki tekið á móti öllum“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.

Ákveðin vatnaskil eru að verða í íslenskum stjórnmálum með því að fleiri og fleiri stjórnmálaleiðtogar stíga nú fram og viðurkenna nauðsyn þess að koma í gegn breytingum á löggjöf um útlendingamál og hælisleitendur; innviðir landsins þoli ekki óbreytt ástand með annars konar reglum á íslenskum landamærum en gilda á Norðurlöndunum og stórauknum kostnaði sem eykst ár frá ári. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segist skynja tækifæri til samstöðu á miðjunni til að gera nauðsynlegar breytingar. Hún varar við skautun í umræðunni eða hún hverfist um pólana með og á móti, en öllum megi þó vera ljóst að við Íslendingar getum ekki tekið á móti öllum sem hingað myndu vilja sækja.

Frétt Viljans frá í gær um breyttan tón í yfirlýsingum formanns Samfylkingarinnar í þessum málum vakti mikla athygli. Til lengri tíma hefur einkum heyrst í Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, og Jóni Gunnarssyni, fv. dómsmálaráðherra, sem báðir hafa varað mjög við þróun mála og kostnaði sem yxi stjórnlaust og væri kominn algjörlega úr böndunum. Undir það hefur formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, tekið að undanförnu og sætt bæði mikilli gagnrýni fyrir, en líka fengið miklar undirtektir.

Útspil Kristrúnar vakti raunar strax viðbrögð Jóns Gunnarssonar, sem Viljinn sagði frá, en hann benti á að allir þingmenn Samfylkingarinnar hefðu í fyrra staðið gegn breytingum sem hann vildi gera á löggjöf í þessum efnum.

Stjórnleysi staðfest af ráðherrum Sjálfstæðisflokksins

Skautun í umræðunni er enda mikil. Þorgerður Katrín segir í grein á Vísi í dag að stjórnleysi ríki í þessum málaflokki og það hafi meira að segja verið staðfest af forystu Sjálfstæðisflokksins og þeim ráðherrum sem hafi borist mesta ábyrgð á þróun mála.

„Það er í sjálfu sér eðlileg afleiðing þess að hafa um margra ára skeið verið með ríkisstjórn í landinu sem getur ekki tekið stórar stefnumarkandi ákvarðanir. Það er löngu kominn tími á ærlegt samtal. Það er líka brýnna en nokkru sinni að miðjan í pólitíkinni geri alvöru tilraun til þess að ná saman um skynsama og ábyrga stefnu á þessu sviði. Að við viðurkennum að landið okkar er ekki lokað en heldur ekki galopið. Við getum ekki tekið á móti öllum. Mótum stefnu þar sem mennska, framsýni og raunsæi verða leiðarljós. Og að efnahagslegur veruleiki verði hluti af menginu,“ segir hún.

Við þurfum að ráða við aðlögun nýrra borgara í landinu, hlúa að kerfunum okkar, tungumálinu og sníða okkur stakk eftir vexti.

Formaður Viðreisnar segir flestum orðið ljóst að mikið vanti upp á stefnufestu og stöðugleika í þessum málum.

„En ég held að hitt sé einsdæmi að ráðherra lýsi stöðu í eigin ráðuneyti með svo sterkum orðum eftir að hafa tekið við keflinu af sex flokkssystkinum sínum, sem stýrt hafa innflytjendamálum samfleytt í ellefu ár. Þetta virkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn sé í stjórnarandstöðu við sjálfan sig. Réttara væri kannski að segja að þingmennirnir öxluðu ekki ábyrgð á eigin valdastöðu.“

Minnir á villikettina í vinstri stjórn Jóhönnu

Hún bætir því við að ríkisstjórnarsamstarfið minni nú á villikettina svokölluðu í þingflokki VG á tíma vinstri stjórnarinnar og það sé „sérstaklega alvarlegt í því ljósi að málefni hælisleitenda eru eitt stærsta og viðkvæmasta viðfangsefni samtímans – og ekki bara hér á landi“. Þau snúist um mannréttindi á grundvelli alþjóðlegra skuldbindinga, sem við Íslendingar höfum undirgengist. Og þau snúist um hvernig við viljum sjá samfélagið okkar byggjast upp til skemmri og lengri tíma.

„Um leið verðum við að horfast í augu við að aðstæður í heiminum hafa umbylst á undanförnum misserum. Flóttamannastraumurinn hefur stóraukist og á eftir að vaxa enn. Nauðsynlegt er að laga regluverkið svo mikilvægt viðfangsefni fari ekki úr böndunum. Við þurfum að ráða við aðlögun nýrra borgara í landinu, hlúa að kerfunum okkar, tungumálinu og sníða okkur stakk eftir vexti. Við þurfum um leið að vera í samræmi við það sem nágrannaþjóðir okkar gera í þessum efnum. Til verksins þarf tvennt; skýra stefnu og ríkisstjórn sem getur gengið í takt þegar stóru málin eru undir,“ segir hún ennfremur.

Prófsteinn á hvort þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er stjórntækur

Og Þorgerður Katrín, sem er jú einu sinni fyrrverandi varaformaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, sendir sínum gamla flokki sneið undir lok greinar sinnar, þegar hún spyr hvert markmið sjálfstæðismanna sé í þessari umræðu:

„Upp á síðkastið hef ég velt því fyrir mér hvort hægagangurinn í þessari vinnu stafi af því að þingmenn sjálfstæðismanna hafi í raun ekki áhuga á breiðu samstarfi um þessi efni. Þeir telji árangursríkara að láta kosningabaráttu sína snúast um stjórnleysi eigin ríkisstjórnar. Trump gæti verið fyrirmyndin. Á dögunum lét hann samflokksmenn sína á þingi hlaupa frá samkomulagi, sem þeir höfðu gert um landamæravörslu því það þjónaði betur kosningabaráttu hans að hafa allt í upplausn. Vonandi eru þetta ástæðulausar grunsemdir. En fram hjá því verður ekki horft að þetta mál er prófsteinn á það hvort þingflokkur sjálfstæðismanna er í reynd stjórntækur. Breytingin frá tíma Hönnu Birnu og Ólafar í dómsmálaráðuneytinu er hins vegar áþreifanleg. En sjáum hvað setur.“

Viðreisn tilbúin að taka þátt í lausninni

Hún segir að lokum að Viðreisn sé tilbúin að vera með í lausninni. Hennar mat sé að tveir til þrír af fimm flokkum í stjórnarandstöðu gætu mögulega náð saman með ríkisstjórnarflokkunum um breitt samstarf á þessu sviði. Slík samstaða geti skilað regluverki sem sé líklegt til að standast tímans tönn og lifa ríkisstjórnir.

„Þó að flestir séu komnir í kosningaham eigum við að kýla á þetta mál og freista þess að ná samstöðu á miðjunni fyrir vorið. Það er eina ábyrga viðhorfið. Viðreisn er tilbúin til að taka þátt í lausninni,“ segir Þorgerður Katrín.