Vill starfsmannaskipti hjá lögreglu þegar kemur að netrannsóknum

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra og Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis á fundi ráðherraráðs ESB.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra sótti óformlegan ráðherrafundi í Búkarest dagana 6.-8. febrúar en Rúmenía tók við formennsku í ráðherraráði ESB þann 1. janúar sl.

Á fundinum ræddu ráðherrar niðurstöður nefndar um hryðjuverkaógn sem Evrópuráðið skipaði í júlí 2016, mikilvægi lögreglusamvinnu aðildarríkja þegar kemur að netrannsóknum, málefni flóttamanna auk þess sem Schengen-samstarfið í heild og styrking þess var rædd, að því er segir í fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Ráðherrarnir heimsóttu einnig landamærastofnun Rúmeníu og fengu kynningu á störfum hennar. Rúmenía er ekki aðili að Schengen-samstarfinu en vinnur að aðild með því að efla eftirlit á ytri landamærum sem liggja að Serbíu, Úkraínu og Svartahafinu.

Dómsmálaráðherra lagði áherslu á mikilvægi lögreglusamvinnu innan Evrópu þegar kemur að netrannsóknum og lýsti jafnframt yfir áhuga á því að koma á starfsmannaskiptum á þessu tiltekna sviði innan lögreglunnar svo ríki geti miðlað sérþekkingu og reynslu sín á milli.