Viltu kannski kasta eggjum? Vaxandi ótti innan VG um framtíð stjórnarinnar

Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Fréttaskýring: Eftir því sem átök harðna á vinnumarkaði með tilheyrandi skotgrafahernaði í umræðunni, fara áhyggjur áhrifafólks innan Vinstri grænna vaxandi yfir því hvað næstu dagar, vikur og mánuðir hafa í för með sér. Vitað er að bakland flokksins er veikt fyrir áherslum um verkalýðshreyfingarinnar og þar á bæ hafa menn áhyggjur af því að sótt verði að flokknum frá vinstri — frá Samfylkingu en einkum Sósíalistaflokknum og er bent á, í því samhengi, að sósíalistar skipuleggi nú fjöldamótmæli gulvestunga og baráttufundi sem beinist ekki síst að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Telja fleiri og fleiri Vinstri grænir að markmið mótmælanna og kröfugerðar verkalýðshreyfingarinnar sé öðrum þræði að skipta um stjórnarfar í landinu og koma aftur á hreinni vinstri stjórn. Slík ríkisstjórn væri aftur líklegri til að breyta skattkerfinu í samræmi við kröfur verkalýðshreyfingarinnar, koma á hátekjuskatti, hækka veiðileyfagjöld og þannig mætti áfram telja.

„Viltu kannski kasta eggjum?“ spyr sósíalistaforinginn og fjölmiðlamógullinn fyrrverandi, Gunnar Smári Egilsson, í færslu á vef Sósíalistaflokksins. Hann auglýsir þar Sósíalistakaffi sem haldið verður á morgun, en þar stendur til að ræða eftirtalin atriði:

Hverju eigum við að mótmæla og hvernig?

„Hverju eigum við að mótmæla og hvernig? Hvert er hlutverk sósíalista í mótmælum og öðrum aðgerðum þar sem hin kúguðu rísa upp og krefjast úrbóta?

Allt áhugafólk um mótmæli og réttlátt samfélag er hvatt til að koma og taka þátt í samtalinu, gefa sig fram til starfa og undirbúnings fyrir mótmæli næstu vikna. Fulltrúar frá ýmsum grasrótarhópum deila reynslu sinni af mótmælum; Gulu vestin, Jæja, Endurreisn verkalýðshreyfingarinnar, Skiltakarlarnir, Aðgerðarhópur háttvirtra öryrkja og aldraðra o.s.frv.“

Af fundarboðinu verður ráðið, að skipuleggja eigi töluverðan fjölda mótmæla á næstunni, þar á meðal hádegismótmæli gulvestunga, aðra hungurgöngu í mars, stóran útifund þann 8. mars nk þegar láglaunakonur leggja niður vinnu og margt fleira.

Ljóst er að sósíalistar eru að skipuleggja umrædda viðburði í tengslum við verkfallsaðgerðir Eflingar og VR og fleiri félaga og það hefur ýtt undir áhyggjur innan raða VG af þróun mála.