Vínarflugvöllur býður mótefnamælingu til að sleppa við sóttkví

Alþjóðaflugvöllurinn í Vínarborg í Austurríki ætlar frá og með morgundeginum að bjóða flugfarþegum sem koma til landsins að sleppa við fjórtán daga sóttkví með því að framvísa skírteini þess efnis að þeir hafi þróað með sér mótefni gegn kórónuveirunni Covid-19, eða að gangast undir skyndiskimun fyrir veirunni á staðnum. Svör úr slíkri skimun eiga að liggja fyrir innan tveggja til þriggja klukkustunda.

Í tilkynningu frá yfirvöldum á flugvellinum segir að þetta eigi að auðvelda flugfarþegum að koma til landsins. Austurríki er eins og önnur ríki Evrópusambandsins með bann við komu farþega utan Schengen-svæðisins.

Á flugvellinum munu brottfararfarþegar jafnframt geta undirgengið prófið og gengið skírteini upp á vasann til að sýna í því landi sem ferðinni er heitið.

Farþegar munu sjálfir greiða kostnað við skimunina, en hann nemur 190 evrum.

Umferð gegnum Vínarflugvöll hefur verið í lágmarki undanfarið og sem stendur er aðeins flogið þaðan til Doha, Dortmund, Düsseldorf, Frankfurt, Hamborgar, Lissabon, Minsk og Sofiu, auk tilfallandi leigufluga.

Alls hafa ríflega fimmtán þúsund manns greinst með staðfest smit þar í landi og 598 látist. Undanfarnar vikur hefur útgöngubann verið í gildi og margvíslegar takmarkanir á daglegu lífi fólks, en í liðinni viku opnuðu mörg fyrirtæki aftur, t.d. stórverslanir og hárgreiðslustofur.