Vinda ofan af áhrifum verðtryggingar á neytendalán

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra./ Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Núverandi og fyrrverandi forsætisráðherrar landsins tókust á um kjaramálin og stöðuna á vinnumarkaði við upphaf þingfundar á Alþingi í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði þá Katrínu Jakobsdóttur, formann VG og forsætisráðherra, hvort til greina komi af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera meira til að liðka fyrir lausn kjaradeilna svo koma megi í veg fyrir harðvítug átök og verkföll.

Vísaði Sigmundur Davíð til þess að skattaútspil stjórnvalda hafi ekki slegið í gegn hjá verkalýðshreyfingunni og spurði hvort ekki kæmi til greina að skoða vexti og verðtryggingu til þess að bæta hag heimilanna og liðka fyrir samkomulagi.

Forsætisráðherra svaraði því til að skattapakkinn, sem kynntur hefði verið á dögunum, ætti eftir að fá þinglega meðferð og gæti tekið einhverjum breytingum í henni, en meginlínurnar lægju þó fyrir. Hún kvaðst tilbúin í samtal við aðila vinnumarkaðarins um breytingar á fjármálakerfinu, þar með talið vexti og verðtryggingu, og vísaði til atriða sem væri að skoða áfram, t.d. varðandi aðgerðir á húsnæðismarkaði.

Hún sagðist jafnframt vera tilbúin til að ræða aðgerðir til að vinda ofan af áhrifum verðtryggingar á neytendalán auk þess sem hún væri reiðubúin í samtal um lífeyrismálinm eins og óskað hafi verið eftir.

Hægt er að horfa á umræður þeirra Sigmundar Davíðs og Katrínar í spilaranum hér fyrir neðan.