Vinsældir Pútíns fara minnkandi

Vladimir Pútín, Rússlandsforseti vill nú breyta stjórnarskrá landsins.

Ný könnun á vegum Levada Centre í Rússlandi sýnir að 45% Rússa telja land sitt á rangri braut. Fyrirtækið hefur gert svipaðar kannanir síðan 1999 en ekki síðan 2006 hafa svo margir verið þessarar skoðunar um hvert stefnir. Alls telja 42% að „mál stefni í rétta átt“ en 13% segja erfitt að svara spurningunni.

Vinsældir Vladimirs Pútins forseta minnka úr 80% árið 2018 í 64% í lok janúar 2019. Vinsældir forsætisráðherrans, Dmitríjs Medvedevs mælast nú 33% og hafa aldrei verið minni.

Þeim fjölgar hlutfallslega í Rússlandi sem telja stjórn lands síns ekki standa sig nógu vel, var fjölgunin 10 stig frá því í fyrra, alls er 61% óánægja með ríkisstjórnina.

Þótt fjármunir í þágu almennra borgara séu litlir boðar ríkisstjórnin nú aukin útgjöld til hermála og nýrra vopna. Þetta kom fram hjá Medvedev sunnudaginn 3. febrúar. Þar tekur hann mið af yfirlýsingu Pútíns frá laugardeginum 2. febrúar um að Rússar segi sig frá INF-samningnum um takmörkun meðaldrægra kjarnavopna.

Á vefsíðu Kremlar hefur verið birt frásögn af fundi Pútins með Sergei Lavrov utanríkisráðherra og Sergei Shoigu varnarmálaráðherra. Þar hafi Pútin sagt að Rússar mundu gera sama og Bandaríkjamenn: „Þeir sögðust vinna að rannsóknum, þróun og hönnun og við munum gera það sama,“ er haft eftir Pútin.

Hann sagði einnig að nýjar flaugar yrðu settar upp. „Ég samþykki tillögu varnarmálaráðuneytisins um að smíða skotpalla á landi fyrir Kalibr-flaugar og vinna að nýju verkefni sem miðar að þróun á meðaldrægri ofurhraðaflaug sem skotið er af landi.“

Forsetinn lagði hins vegar áherslu að nýja vopnakerfið yrði þróað innan núgildandi fjárlagaramma varnarmálaráðuneytisins. Sergei Shoigu sagði að ráðuneyti sitt mundi gera nauðsynlegar breytingar á fjárlögum ársins 2019 svo að þetta tækist innan núgildandi ramma.

Af vardberg.is, birt með leyfi.