Vinstri bylgja? Sósíalistar myndu ná manni á þing en Inga Sæland dytti út

Gunnar Smári Egilsson, aðalforsprakki Sósíalistaflokks Íslands.

„Sósíalistar voru mældir í fyrsta sinn hjá Gallup í desember og mælast strax með þingmenn inni í janúar, þótt tæpt sé. Ég reikna með að flokkurinn muni styrkja sig í þessum könnunum á næstu mánuðum eftir því sem fólk áttar sig á að hann er valkostur. Og hann er vissulega góður valkostur við þá flokka sem nú eru á þingi,“ segir Gunnar Smári Egilsson, aðalforsprakki Sósíalistaflokks Íslands, í samtali við Viljann, en þau sögulegu tíðindi urðu í dag að flokkurinn mælist yfir 5% fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það þýðir að hann myndi ná kjörnum fulltrúum á þing, ef kosið yrði nú.

Gunnar Smári telur að flokkurinn sé orðinn raunverulegur valkostur með starfi sínu innan verkalýðshreyfingarinnar, í borgarstjórn og víðar.

„Þetta er ungur flokkur, hann verður tveggja ára 1. maí næstkomandi, og hann styrkist dag frá degi,“ segir hann.

Skjáskot af vef Ríkisútvarpsins.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkur landsins í þjóðarpúlsi Gallups og fengi 23,4 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist og nú segjast 49 prósent styðja hana.

Meðal helstu tíðinda annarra í könnuninni má nefna nokkurt fylgistap Framsóknarflokksins, eða um þrjú prósentustig milli mánaða. Píratar og Sósíalistar bæta við sig tveimur prósentustigum, en Flokkur fólksins mælist með aðeins 3,7% fylgi, sem myndi ekki duga til að koma Ingu Sæland eða öðrum fulltrúum flokksins inn á þing.