„Sósíalistar voru mældir í fyrsta sinn hjá Gallup í desember og mælast strax með þingmenn inni í janúar, þótt tæpt sé. Ég reikna með að flokkurinn muni styrkja sig í þessum könnunum á næstu mánuðum eftir því sem fólk áttar sig á að hann er valkostur. Og hann er vissulega góður valkostur við þá flokka sem nú eru á þingi,“ segir Gunnar Smári Egilsson, aðalforsprakki Sósíalistaflokks Íslands, í samtali við Viljann, en þau sögulegu tíðindi urðu í dag að flokkurinn mælist yfir 5% fylgi í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Það þýðir að hann myndi ná kjörnum fulltrúum á þing, ef kosið yrði nú.
Gunnar Smári telur að flokkurinn sé orðinn raunverulegur valkostur með starfi sínu innan verkalýðshreyfingarinnar, í borgarstjórn og víðar.
„Þetta er ungur flokkur, hann verður tveggja ára 1. maí næstkomandi, og hann styrkist dag frá degi,“ segir hann.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærsti flokkur landsins í þjóðarpúlsi Gallups og fengi 23,4 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga nú. Stuðningur við ríkisstjórnina hefur aukist og nú segjast 49 prósent styðja hana.
Meðal helstu tíðinda annarra í könnuninni má nefna nokkurt fylgistap Framsóknarflokksins, eða um þrjú prósentustig milli mánaða. Píratar og Sósíalistar bæta við sig tveimur prósentustigum, en Flokkur fólksins mælist með aðeins 3,7% fylgi, sem myndi ekki duga til að koma Ingu Sæland eða öðrum fulltrúum flokksins inn á þing.