Vinstri menn skilja ekki aðstæður vinnandi fólks í þessu landi

Ingvar Smári Birgisson, formaður SUS.

„Nú eru jafnaðarmenn aftur að leggja til sykurskatt, eftir að Sjálfstæðisflokkurinn afnam þá hrakför fyrir nokkrum árum. Skatturinn fellur vel að hugmyndum þeirra að ákjósanlegt sé að stýra samfélaginu í „rétta“ átt með boðum og bönnum,“ segir Ingvar Smári Birgisson, lögmaður og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Hann segist í færslu á fésbókinni ekki efast um að sykurskattur virki, þ.e.a.s. að hann hafi áhrif á neysluvenjur fólks.

„Skatturinn hefur þó minni áhrif en marga grunar. Það segir sig samt sjálft að þeir sem hafa minni ráðstöfunartekjur muni finna meira fyrir skattinum. Manneskja með hátt upp í milljón kr. á mánuði (t.d. starfsmaður í ráðuneyti) mun ekki setja það fyrir sig að súkkulaðistykki hækki um 20 kr. Þannig held ég að sykurskatturinn sé fyrst og fremst neyslustýringartól gagnvart lágtekjufólki.

Það er eitthvað yndislega öfugsnúið að jafnaðarmenn hafi það á dagskrá sinni að koma í veg fyrir að lágtekjufólk borði vínarbrauð og kleinur. Þetta er kannski ástæðan fyrir því af hverju lágtekjufólk hefur í hrönnum hætt að kjósa vinstriflokkana. Þeir skilja ekki aðstæður vinnandi fólks í þessu landi,“ segir Ingvar Smári ennfremur.