„Það virðast engin takmörk vera fyrir plebbaskap einstakra þingmanna,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýnir að þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar og Viðreisnar hafi krafist þess að lögregla kæmi fyrir þingnefnd í morgun til að svara fyrir aðgerðir hennar í tengslum við mótmæli hælisleitenda og samtakanna No borders á Austurvelli í síðustu viku.
Brynjar segir í færslu á fésbókinni að sérstakri nefnd hafi verið komið á fót fyrir tveimur árum til að fara yfir kvartanir og aðfinnslur um störf og starfshætti lögreglunnar.
„Sumir þingmenn halda að það sé hlutverk þeirra að hafa eftirlit með öllu sem gerist í samfélaginu. Þingmenn sem geta ekki einu sinni haft sæmilegt eftirlit með sjálfum sér hafa ekkert með slík eftirlitsstörf að gera,“ segir Brynjar.
Valdbeiting verður aldrei krúttleg
Á fundinum í allherjar- og menntamálanefnd Alþingis í morgun, sem haldinn var að beiðni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingflokksformanns Pírata, sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, að valdbeiting lögreglu gæti aldrei verið falleg, en hún væri stundum nauðsynleg.

„Ásgeir Þór útskýrði fyrir þingmönnum á fundinum, að hann teldi lögreglu hafa beitt meðalhófi í aðgerðum sínum, þar sem piparúða var beitt og tveir handteknir. Valdbeiting yrði hins vegar aldrei „krúttleg“.
Fram kom í máli Ásgeirs að í þeim aðstæðum sem þarna voru uppi, þar sem einn mótmælandi hafði verið handtekinn fyrir að sparka ítrekað í lögreglumann og svo annar handtekinn fyrir að reyna að koma í veg fyrir handtöku hins fyrsta, hefði lögregla haft heimild til þess að beita kylfum gegn mótmælendum. Beiting piparúða væri hins vegar skilgreind sem vægara valdbeitingarúrræði,“ segir í frétt mbl.is um málið.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, sagði á fundinum að aðgerðir lögreglu væru komnar til nefndar sem hefur eftirlit með störfum lögreglunnar. Málið yrði þannig yfirfarið af óháðum aðilum en fullt af myndefni væri til frá Austurvelli.