Virkjum hugvitið til þess að drífa vöxt framtíðar

Á myndinni eru, talið frá vinstri, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, Eliza Reid, forsetafrú, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, og Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku. / MYND/Birgir Ísleifur Gunnarsson

Ár nýsköpunar 2020 var sett með formlegum hætti í gær, þegar Eliza Reid, forsetafrú, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Helgi Hjálmarsson, framkvæmdastjóri Völku, fluttu ávörp um leið og afhjúpað var nýtt myndmerki.

Merkið sýnir ljósaperu sem er alþjóðleg táknmynd nýsköpunar og Ísland staðsett inn í perunni þar sem kraftar nýsköpunar flæða um allt land. Setningin fór fram í húsnæði hátæknifyrirtækisins Völku sem er meðal aðildarfyrirtækja SI en fyrirtækið er þekkt um allan heim fyrir nýsköpun og framsækni.

Með því að tileinka árið 2020 nýsköpun vilja Samtök iðnaðarins leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á mikilvægi nýsköpunar fyrir framfarir í íslensku atvinnulífi.

„Með ári nýsköpunar vilja Samtök iðnaðarins hvetja til nýsköpunar og þess að við virkjum hugvitið í meira mæli til þess að drífa vöxt framtíðar,“ segir Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

„Við viljum horfa á nýsköpun í sínum víðasta skilningi hvort heldur er hjá sprotafyrirtækjum sem eru að taka sín fyrstu skref eða hjá rótgrónum fyrirtækjum. Á árinu verða fjölmargir viðburðir þar sem fjallað verður um nýsköpun frá ýmsum hliðum en með því hvetjum við til frekari nýsköpunar hér á landi enda getur nýsköpun skapað fyrirtækjum forskot í samkeppni, skapað verðmæti og störf svo ekki sé minnst á að með nýsköpun leysum við helstu áskoranir framtíðarinnar um leið og við styrkjum samkeppnishæfnina. Atvinnulífið, stjórnvöld og samfélagið allt þurfa að taka höndum saman og efla nýsköpun því þannig gerum við Ísland að nýsköpunarlandi,“ bætir hann við.