Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að senda brot Reykjavíkurborgar á lögum um persónuvernd við framkvæmd kosninganna í fyrra til dómsmálaráðuneytisins. Hún lagði fram bókun þessa efnis á fundi borgarráðs í dag.
„Stofnunum ríkissins, Persónuvernd, Hagstofu Íslands, Þjóðskrá, Dómsmálaráðuneytinu, Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, Póst- og fjarskiptastofnun og Vísindasiðanefnd var þvælt inn í hina svokölluðu „kosningarannsókn“ sem Reykjavíkurborg stóð fyrir í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna,“ segir í bókun Vigdísar.
„Aldrei fyrr á Íslandi hefur verið gerð álíka árás á lýðræðið í landinu. Nánast í hverri einustu stofnun loguðu rauð ljós,“ segir hún ennfremur.
Vigdís bendir í bókuninni á að dómsmálaráðuneytið hafi auk Persónuverndar gert alvarlegar athugasemdir. Póst- og fjarskiptastofnun hafi hafnað beiðni Reykjavíkur um að senda smáskilaboð til kjósenda. Samt hafi verið haldið áfram með málið.
„Ekkert í þessu máli varðar almannahagsmuni eins og það hugtak er skýrt í lögum. Það er kristaltært að viljinn til þess að hafa áhrif á kosningarnar var keyrður áfram af ásettu ráði og verknaðurinn var fullframinn og tókst. Reykjavíkurborg hylmdi yfir að svokölluð rannsókn var útvíkkuð á skrifstofum ráðhússins þegar ákveðið var að bæta konum sem voru 80 ára og eldri og öllum útlendingum með lögheimili í Reykjavík skilaboð/bréf. Það hefur verið úrskurðað ólögmætt samkvæmt úrskurði Persónuverndar,“ segir hún ennfremur.
Og lokaorð bókunar Vigdísar eru þessi:
„Borgarfulltrúi Miðflokksins hefur ákveðið að senda málið áfram til Dómsmálaráðuneytisins til frekari úrskurðar um lögmæti borgarstjórnarkosninganna sem fram fóru hinn 26. maí 2018.”