Alþingi kemur saman á ný í dag eftir jólaleyfi og skv. starfsáætlun eiga fundir þingsins að standa fram í júní. Fyrirfram er búist við að tekist verði á um nokkur stór áherslumál ríkisstjórnarinnar, auk þess sem erfiðar deilur á vinnumarkaði geta sett strik í reikninginn.
Á þingfundi í dag fer fram umræða um stöðuna í stjórnmálunum og verkefnin framundan. Til máls munu taka formenn allra stjórnmálaflokka eða staðgenglar þeirra.
Fyrir jólaleyfi náðist samkomulag um að fresta afgreiðslu samgönguáætlunar til vorþings. Búast má við heitum umræðum um málið, enda felur það í sér stórtækustu áform um vegtolla sem sést hafa hér á landi.
Meðal annarra mála, sem búast má við að tekist verði á um, eru lækkun á bankaskatti, sem þegar hefur verið samþykkt í ríkisstjórn en á eftir að afgreiða í þingflokkum stjórnarflokkanna, frumvarp um sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins, niðurlagningu Kjararáðs, nýjan þjóðarsjóð um arð af náttúruauðlindum, innleiðingu orkupakka þrjú og ný lög um fiskeldi.
Þá er ekki ólíklegt, að tekist verði á um efnahagsmál með tilliti til vinnumarkaðarins á vorþingi, sérstaklega ef kemur til erfiðra deilna og jafnvel verkfalla á vormánuðum eins og margir óttast að geti gerst.
Aukinheldur er viðbúið að hörð átök geti orðið um þann vilja Steingríms J. Sigfússonar, forseta þingsins, að skipa sérstaka forsætisnefnd til að vísa Klaustursmálinu til siðanefndar.