„Dagblöð eru búin að vera“, segir fjárfestirinn heimsþekkti Warren Buffett, í viðtali við Yahoo Finance. „Heimurinn er gjörbreyttur“, segir hann, fólk er hætt að leita að fasteignum, bílum og fleiru í auglýsingum blaðanna, en notar þess í stað Netið til þess. Fréttir og íþróttir er fólk almennt búið að lesa á veraldarvefnum áður en að dagblaðið kemur inn um bréfalúguna.
Fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway á um tylft smærri dagblaða eins og t.d. Buffalo News og Omaha World-Herald. Buffett hafði áður minnst á fallandi horfur dagblaða á aðalfundi félags síns í fyrra, en það hafi þó lítil áhrif á milljarðafélag hans.
Framundan er aðalfundur Berkshire Hathaway um næstu helgi, þar sem búist er við að um 40 þúsund hluthafar mæti.
Árið 2016 hafði dagblaðaiðnaðurinn tapað þriðjungi auglýsingatekna sinna frá því áratug áður. „Það kemur blaðamönnum í uppnám þegar það er sagt, en auglýsingarnar voru mikilvægasta efni blaðanna frá sjónarhorni lesendanna“, segir Buffett. Þangað hafi fólk sótt tilboð, fylgst með atvinnuauglýsingum, fasteignaauglýsingum og vitað hvað var í gangi í nærumhverfinu.
Buffett telur þó að blöð eins og New York Times, Washington Post og the Wall Street Journal muni lifa breytingarnar af.