Warren Buffett: Dagblöðin eru búin að vera

„Dagblöð eru búin að vera“, segir fjárfestirinn heimsþekkti Warren Buffett, í viðtali við Yahoo Finance. „Heimurinn er gjörbreyttur“, segir hann, fólk er hætt að leita að fasteignum, bílum og fleiru í auglýsingum blaðanna, en notar þess í stað Netið til þess. Fréttir og íþróttir er fólk almennt búið að lesa á veraldarvefnum áður en að dagblaðið kemur inn um bréfalúguna. 

Fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway á um tylft smærri dagblaða eins og t.d. Buffalo News og Omaha World-Herald. Buffett hafði áður minnst á fallandi horfur dagblaða á aðalfundi félags síns í fyrra, en það hafi þó lítil áhrif á milljarðafélag hans.

Framundan er aðalfundur Berkshire Hathaway um næstu helgi, þar sem búist er við að um 40 þúsund hluthafar mæti.

Warren Buffett er m.a. einn stærsti hluthafinn í Coca Cola Company gegnum Berkshire.

Árið 2016 hafði dagblaðaiðnaðurinn tapað þriðjungi auglýsingatekna sinna frá því áratug áður. „Það kemur blaðamönnum í uppnám þegar það er sagt, en auglýsingarnar voru mikilvægasta efni blaðanna frá sjónarhorni lesendanna“, segir Buffett. Þangað hafi fólk sótt tilboð, fylgst með atvinnuauglýsingum, fasteignaauglýsingum og vitað hvað var í gangi í nærumhverfinu.

Buffett telur þó að blöð eins og New York Times, Washington Post og the Wall Street Journal muni lifa breytingarnar af.