Nýja omrikon afbrigði kórónuveirunnar, sem kennt er við Suður Afríku, berst nú um heiminn með áður óþekktum smithraða, segir í tilkynningu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) sem birt var í dag. Nú þegar hefur hið nýja afbrigði, sem kom upp í nóvember í Suður Afríku, greinst í 77 löndum og leikur grunur á að hún hafi náð að dreifa sér til mun fleiri landa.
Í frétt BBC er skýrt frá blaðamannafundi Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóra WHO í dag, sem sagðist hafa áhyggjur af því að ekki væri verið að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna þessa.
„Við ættum nú að hafa lært að vanmeta ekki þessa veiru. Jafnvel þótt omrikon valdi mögulega minni veikindum en önnur afbrigði, er ljóst að hin gríðarlega útbreiðsla og smithraðinn getur orðið að slíkum fjölda tilfella að heilbrigðiskerfið ráði ekki við það, enn einn ganginn,“ sagði hann.
Skilaboð WHO eins og áður eru því þau að heilbrigðisyfirvöld í einstökum löndum verði að grípa til viðeigandi aðgerða til að fletja kúrfuna, svo fjöldi smita og þeirra sem veikjast ríði heilbrigðisþjónustunni ekki á slig.
Vísindamenn hafa sagt of snemmt að draga ályktanir af alvarleika omrikon afbrigðisins, sérstaklega þar sem enn eigi eftir að koma í ljós hvaða áhrif sýking af völdum hennar hafi á fólk af mismunandi þjóðernum, þá sem glíma við undirliggjandi sjúkdóma og svo framvegis. Þó sé ljóst að það sé skeinuhættara bólusettu fólki en önnur afbrigði, smitist hraðar og mörg dæmi sé um að fólk sýkist af hinu nýja afbrigði, enda þótt það hafi áður fengið COVID-19.