„Endurvakinn flugrekstur WOW skiptir almenning á Íslandi og sömuleiðis í Bandaríkjunum miklu máli og mun efla bæði menningarleg og viðskiptaleg tengsl á milli Reykjavíkur og Washington,“ sagði Michele Roosevelt Edwards, stjórnarformaður WOW Airlines, á blaðamannafundi á Veitingastaðnum Grillinu nú eftir hádegið, þar sem tilkynnt var um kaup hennar á ýmsum verðmætum úr þrotabúi WOW air.
„Við hyggjumst auka umsvifin í farþegafluginu með fleiri flugvélum áður en sumarið heilsar okkur. Frá fyrsta degi í vöruflutningunum, sem einnig munu hefjast á næstu vikum, munum við leggja mikinn metnað í vandaða þjónustu á sviði vöruflutninga með ferskt íslenskt sjávarfang á Bandaríkjamarkað,“ bætti hún við.
Endanlegt samkomulag hefur náðst á milli USAerospace Associates LLC og skiptastjóra þrotabús WOW air um kaup félagsins á þeim eignum þrotabúsins sem tilheyra WOW vörumerkinu. WOW mun hefja lágfargjaldaflugrekstur WOW air til Bandaríkjanna og Evrópu og er fyrsta flugið áformað á milli Washington Dulles og Keflavíkur í október.

Áætlanir gera ráð fyrir vaxandi umsvifum þegar líður á veturinn og mæta síðan árstíðabundinni aukningu í farþegaflugi til og frá Íslandi næsta sumar. Stjórnendateymi hins nýja flugreksturs leggur mikla áherslu á þátt vöruflutninga í starfseminni.
USAerospace er bandarískt eignarhaldsfélag sem sérhæfir sig í fluggeiranum. Innan félagsins er víðfeðm þekking og umtalsverð reynsla í flugrekstri, viðhalds- og viðgerðarþjónustu, breytingum og endurnýjun innréttinga og búnaðar í flugvélum og sérhæfðri flugvélaverkfræðitengdri ráðgjöf til flugvélaframleiðenda um frumhönnun og framleiðsluþróun nýs tækjabúnaðar, starfsmannaráðningum o.fl. USAerospace tengist viðamiklu alþjóðlegu farþegaflugi auk vöruflutningaflugs bæði innanlands í Bandaríkjunum og á milli landa.
Stærsti hluthafi í USAerospace og stjórnarformaður félagsins er Michele Roosevelt Edwards. Hún verður einnig stjórnarformaður WOW AIR LLC. Félagið verður staðsett á Washington Dulles alþjóðaflugvellinum (IAD) með aðstöðu á flugvellinum í Keflavík (KEF) og skrifstofu í Reykjavík.
Í stjórnendateymi WOW verður m.a. Charles Celli, COO (rekstrarstjóri) hjá USAerospace. Hann hefur aflað sér víðtækrar reynslu í fluggeiranum í meira en 40 ár, m.a. í mismunandi stjórnunarstöðum hjá McDonnell Douglas, Boeing, General Dynamics Aerospace, GDC Technics og Gulfstream Aerospace Corporation.