Þótt enn hafi ekki verið gengið formlega frá samkomulagi um kaup bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners á stórum eignarhlut í WOW air og lánveitingum til félagsins samhliða, virðist þokast í samkomulagsátt auk þess sem Indigo ætlar að setja meira fjármagn í íslenska flugfélagið en áður var áætlað.
Óvissan um framtíð flugfélagsins WOW air hefur verið ofarlega í umræðunni hér á landi síðustu daga, eftir að ekki tókst að ljúka kaupunum fyrir febrúarlok eins og stefnt var að. Fyrir vikið rann úr samþykki skuldarbréfaeigenda fyrir breyttum skilmálum og þarf félagið nú að óska eftir samþykki þeirra fyrir enn frekari breytingum, þeim helstum að lengt verður í greiðslum úr þremur árum í fyrr, krafist er afskrifta sem taka eiga mið af rekstrarárangri næstu ára og víkjandi lán Skúla sjálfs upp á ríflega 700 milljónir króna verður að fullu afskrifað.
Þetta þýðir að Skúli stendur nú frammi fyrir því að tapa gríðarlegum fjármunum á fjárfestingu sinni í WOW air, því auk þessa láns sem nú virðist tapað, hefur hann lagt félaginu til milljarða króna á umliðnum árum.
Skúli var meðal þeirra sem lögðu félaginu til fjármagn sl. haust og veðsetti hann margvíslegar eignir í þeim tilgangi. Ljóst er að það fjármagn, auk þeirra peninga sem aðrir lánuðu félaginu á þeim tíma, gæti verið að miklu leyti tapað, en það veltur allt á rekstrarárangri næstu ára. Gangi reksturinn vel munu kröfuhafar frá í september fá allt að 50% virði sinna krafna greiddar, en gangi hann illa munu þeir tapa öllu.
Áður hafði komið fram vilji Indigo Partners til að kaupa hlutafé og lána WOW air 75 milljónir dollara, en þeirri upphæð hefur nú verið breytt í 90 milljónir dala, eða um 11 milljarða íslenskra króna.