WOW: Samkomulag um skuldir í höfn, viðræður hafnar við fjárfesta

Flugfélagið WOW air hefur birt á fjárfestavef sínum tilkynningu á ensku, þar sem fram kemur að samkomulag hafi náðst við kröfuhafa félagsins um umbreytingu skulda félagsins í hlutafé.

Það þýðir að skuldir félagsins lækka stórum, líklega um 15-16 milljarða króna, og allir helstu kröfuhafar þess (að ISAVIA undanskildu) hafa fallist á að eignast 49% í félaginu.

Inni í þessum hópi eru meðal annars leigusalar flugvéla, en Jón Karl Ólafsson, fv. forstjóri Icelandair Group, hafði sagt í gær að nær engar líkur væru til þess að slíkir aðilar samþykktu þessa leið.

Formlegar viðræður eru nú þegar hafnar við fjárfesta um nýtt hlutafé og er 51% eignarhlutur til sölu fyrir um það bil 40 milljónir dollara, eða um 5 milljarða króna.

Segir í tilkynningunni að þetta sé mikilvægur áfangi í fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækisins og að tryggja rekstrarhæfi þess með sjálfbærum hætti til framtíðar.

Fer tilkynningin hér á eftir:

Reference is made to a market announcement of WOW air (“WOW“), dated March 24 2019, regarding WOW air’s advanced discussions with bondholders about voluntary restructuring including an agreement of converting current debt into equity.

Bondholders have formally approved to convert their bonds into equity and formal discussions with investors have commenced to fund the company. This is an important milestone in financially restructuring the company and secure the long-term sustainability of WOW air. 

Fólk hefur trú á félaginu

Einn þessara kröfuhafa, sem nú hafa samþykkt samkomulagið og verður þar af leiðandi hluthafi í WOW air, er flugþjónustufyrirtækið Airport Associates á Keflavíkurflugvelli.

Skúli Mogensen verður áfram stór hluthafi í WOW air, takist að bjarga rekstrinum með nýju fjármagni, en fjölmargir aðilar munu eiga félagið með honum.

Sigþór Kristinn Skúlason, forstjóri Airport Associates, sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að kröfuhafar hafi fundað stíft og að þeir séu búnir að samþykkja áætlun um endurskipulagningu fyrirtækisins sem felist í því að breyta skuldum Wow air í 49% hlutafé í félaginu.

„Það er verið að umbreyta rúmlega 15 milljörðum í hlutafé,“ segir Sigþór. Aðrar skuldir séu rekstrartengdar en þær séu ekki til langs tíma.

Sigþór segir að Skúli muni áfram eiga stóran hlut í félaginu en erfitt sé að segja til um hvert hans hlutverk verði hjá Wow air í framtíðinni: „Í dag er hann forstjóri félagsins og það verður í raun og veru bara nýrra eigenda að ákveða hans framtíðarhlutverk,“ segir Sigþór

Hann gerir lítið úr tímapressunni og segir ekki komið að ögurstundu

Reynt hefur verið að afla allt að fimm milljarða króna í nýtt hlutafé, þeir sem kæmu með það eignuðust þá meirihluta í félaginu. Sigþór segir að þetta gætu orðið glænýir hluthafar en einnig einhverjir núverandi kröfuhafa. Hann gerir lítið úr tímapressunni og segir ekki komið að ögurstundu.

Sigþór segir að þegar rýnt sé í tölur Wow air hafi fólk trú á félaginu. „Þá vilja menn fara þessa leið og og telja sig geta fengið þær skuldir sem er verið að umbreyta núna í hlutafé til baka á einhverju örfáum árum,“ segir hann.